Archive for the ‘kegging’ Category

Kolsýra bjór á kútum

Friday, February 28th, 2014

Ég fæ reglulega spurningar um hvernig maður fer að því að kolsýra bjór á kútum. Það eru nokkrar leiðir í boði, eftir því hvernig maður vill gera hlutina og hvað manni liggur mikið á. Það er einmitt einn kostur við kútana að maður getur komið bjórum í drekkanlegt ástand á örstuttum tíma, t.d. grain to glass á 1-2 vikum ef maður er að gera bjór sem þolir það að vera mjög ungur. Flestir bjórar njóta góðs af meiri rólegheitum, en þetta er allavega hægt ef maður þarf þess.

Náttúruleg kolsýra

Þetta er svipuð aðferð og menn eru vanir með flöskurnar. Hérna er settur sykur í bjórinn – Minna magn en ef maður væri að setja á flöskur og kúturinn geymdur í 2-3 vikur í herbergishita á meðan gerið í bjórnum vinnur á sykrinum. Þannig fær maður náttúrulega kolsýru. Ókosturinn er að maður fær töluvert botnfall í kútinn. Til þess að fá minna af botnfalli í glasið eru kútunum venjulega breytt þannig að bjórrörið, rörið sem fer niður á botn í kútnum er stytt. Það er stytt til þess að rörið sé fyrir ofan botnfallið og maður fái ekki botnfall í hvert einasta glas.  Flutningur á kútnum verður líka leiðinlegri þar sem hver hreyfing hristir upp í gerinu og gerir bjórinn skýjaðari. Það er hægt að minnka áhrifin af þessu með því að stytta rörið og færa svo bjórinn yfir á annan kút, en þá er maður kominn í töluverðar tilfærslur án þess að græða endilega á því að nota aðferðina.

Sumir vilja meina að það sé bragðmunur á bjórnum svona, en flestir eru þó ekki á því. Margir vilja meina að t.d. humlaríkir bjórar séu betri, “ferskari” og meira crisp þegar maður kolsýrir með gaskút.

Rólegheit með gasi

Kúturinn er settur á maintenance þrýsting inn í ísskáp og svo bíður maður bara. Það tekur 2-4 vikur að ná fullri kolsýru í bjórinn, en kosturinn við þessa aðferð er að það eru engar líkur á því að maður of kolsýri bjórinn. Einnig er þetta hentugt með marga bjóra því maður vill hvort eð er gefa þeim nokkrar vikur í þroskun áður en maður byrjar að drekka bjórinn. Það er alltaf hægt að fá sér smá smakk reglulega til að athuga kolsýruna á bjórnum þó hann sé ekki alveg orðinn tilbúinn.

Til þess að finna út hvaða þrýsting maður þarf til að fá rétta kolsýru er best að notast við þessa töflu, þar sem samspil hitastigs bjórsins og þrýstings kolsýru er tekið til greina.

Flýtikolsýring

Þessi aðferð er hentug þegar manni liggur mikið á að koma kolsýru á bjórinn. Þá kælir maður bjórinn í ca. 4 gráður og setur um 40PSI þrýsting á kútinn. Kúturinn er svo hristur hressilega í 30-90 sekúndur. Þá er bjórinn orðinn kolsýrður. Það getur verið erfitt að hita á rétt kolsýrustig á bjórnum með þessari aðferð, en það er ágætt að vita af henni ef manni liggur á. Það er mjög auðvelt að of kolsýra bjórinn og þá lendir maður í því að það kemur stanslaus froða þegar maður reynir að fá sér. Það getur tekið nokkra daga að taka þrýsting af kútnum, og þess vegna mæli ég frekar með næstu aðferð, hálfflýtikolsýringu.

Þegar maður er búinn að hrista kútinn lækkar maður þrýsting niður í serving þrýsting og passar að lækka þrýstinginn á kútnum líka. Margir kranar eru ekki gerðir fyrir þennan þrýsting og geta skemmst ef maður hleypir 40psi á þá. Það á sérstaklega við um party/picnic krana.

Hálfflýtikolsýring

Þetta er sú aðferð sem ég nota mest. Hún felst í því að kúturinn er kældur í ca. 4 gráður, og svo settur 40psi þrýstingur á kútinn. Kúturinn er látinn standa með þeim þrýsting í ~20klst og þá er bjórinn orðinn létt kolsýrður. Ég set kútinn svo á maintenance þrýsting og þá skríður bjórinn upp í rétta kolsýru á nokkrum dögum. Kosturinn við þessa aðferð er að þarna eru litlar líkur á því að fara of hátt með kolsýruna, en samt fá næga kolsýru í bjórinn til að það sé hægt að njóta hans fljótt. Svo er hægt

Skilgreiningar

Serving þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum þegar maður er að dæla af honum. Til dæmis ef maður er með stuttar slöngur á krönunum þá þarf að lækka þrýstinginn til þess að bjórinn freyði ekki of mikið.

Maintenance þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum til að viðhalda réttri kolsýru í bjórnum. Venjulega er reynt að hafa serving og maintenance þrýsting þann sama til þess að þurfa ekki að lækka þrýstinginn í hvert skipti sem einhver ætlar að fá sér bjór. Hægt er að finna út hvað maintenance þrýstingurinn á að vera með því að skoða þessa töflu.

Cornelius kútar 101

Tuesday, February 25th, 2014

2013-07-30 11.22.54 (Small)

Cornelius kútar eru kútar sem pepsi og coke notuðu á árum áður fyrir gosdrykkjasýróp en er að mestu hætt að nota. Bruggarar byrjuðu á einhverjum tímapunkti að nota kútana fyrir brugg vegna þess hve algengir kútarnir voru og auðvelt að þrífa. Kútarnir voru auðfengnir notaðir á mjög lítinn pening og því tilvaldir fyrir heimabruggara. Eftir að coke og pepsi hættu að nota kútana hefur orðið erfiðara og erfiðara að finna notaða kúta á góðu verði, og nú er það þannig að það er næstum ómögulegt. Þess vegna eru flestir farnir að kaupa nýja kúta.

Kútarnir eru daglegu tali kallaðir corny kútar og eru til í 3 “standard” stærðum. 3, 5 og 10 gallona, sem samsvarar uþb 11, 19 og 38 lítra. 5 gallona kútar eru algengastir og eru passlegir fyrir eina lögun af bjór. Það finnast einnig aðrar stærðir frá öðrum framleiðendum.

Munur á coke og pepsi kútum

Munurinn á þessum kútum er lítill, en coke kútarnir eru ögn lægri og breiðari en pepsi kútarnir. Einnig eru mismunandi tengi fyrir gas og bjór. Pepsi nota svokölluð ball lock tengi, en Coke nota pinlock tengi. Kútarnir eru svo venjulega kallaðir ball lock eða pinlock kútar, eftir því hvaða tengi eru á þeim.

Ball lock tengin eru þannig að það er hægt að tengja óvart öfugt, t.d. setja gas tengi á bjórpóstinn, en það er ekki æskilegt þar sem það er örlítill munur á tengjunum og maður getur lent í vandræðum með að ná tenginu af kútnum. Kútarnir eru venjulega með merkingar á póstunum, IN og OUT. IN er fyrir gasið, sem er grátt hraðtengi (grey for gas) og OUT fyrir bjórinn, sem er svart hraðtengi (black for beer).

Pin lock tengin eru mismunandi og ekki hægt að setja tengi á rangan póst.

Pin-Lock-vs-Ball-Lock-Posts-and-Disconnects

 

Viðhald og þrif

Fyrir þá sem eru vanir að tappa brugginu sínu á flöskur þá er þægilegt að hugsa um kútana eins og ein stór flaska. Sömu reglur varðandi hreinlæti og meðhöndlun á bjórnum eiga við um kútana. Það er nauðsynlegt að sótthreinsa kút, til dæmis með joðófór áður en bjór er settur á kútinn. Einnig er nauðsynlegt að taka kútana í sundur öðru hvoru til að þrífa staði þar sem bjórsteinn og önnur drulla getur safnast saman. Klór er hentugur til að þrífa, en það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hann er ætandi og það má ekki láta hann standa á kút. PBW er annað hreinsiefni sem fer betur með stálið og verður til á brew.is innan tíðar.

Geymsla

Bjór er hægt að geyma lengi á kútum án þess að nokkuð gerist. Í raun er ekkert sem takmarkar lengdina sem maður getur geymt bjórinn á kút, heldur bara bjórinn sjálfur. Bjórinn þroskast svipað á kút og flöskum og á einhverjum tímapunkti hættir hann að þroskast í rétta átt. Þannig að ef hreinlætið er í lagi, þá ætti bjórinn að endast jafn lengi eða jafnvel lengur á kút en flöskum.

Þegar maður er búinn að tæma kút þá er sterkur leikur að þrífa kútinn og geyma hann hreinan og fínan. Það getur verið erfiðara að þrífa gamlar ger og bjórleifar úr kútnum ef hann fær að standa í lengri tíma með leifunum.

Búnaður

Það er ýmislegt sem þarf að eiga umfram kútana sjálfa

Kolsýruhylki – Gaskútur: Kolsýran er til þess að kolsýra bjórinn en einnig til þess að ýta honum út úr kútnum þegar maður fær sér.

Þrýstijafnari: Þrýstingurinn beint úr kolsýruhylkinu er of hár fyrir corny kútana og bjórinn. Þrýstijafnarinn sér um að lækka hann.

Hraðtengi: Til að tengja slöngur við  kúta.

Slöngur: Til að koma gasi í kútinn og bjór úr honum

Kranar: Til að skenkja bjórnum. Það eru til ódýrir plastkranar, kranar til að setja á ísskáp og ýmsar útfærslur.

Ísskápur: Það þarf að geyma kúta í ísskáp, bæði til þess að geta kolsýrt bjórinn áreiðanlega – Kolsýra leysist betur upp í köldum vökva en volgum. En einnig vegna þess að flestir vilja bjórinn sinn kaldan.

Að lokum

Þetta hjálpar vonandi einhverjum að koma fyrir sig hvað felst í því að vera með bjórkúta. Ég stefni svo á að skrifa einhverja fleiri pósta um einstaka hluti í kútakerfum, hvernig maður púslar þessu saman o.fl. Ef þú hefur einhverjar spurningar þá er tilvalið að commenta hér og spyrja.