Archive for the ‘brewing’ Category

Eplasíder úr eplaþykkni

Wednesday, May 31st, 2017

Ég hef gert nokkrar eplasíder tilraunir í gegnum tíðina. Til dæmis Edwort Apfelwein-ið af homebrewtalk. Það bragðaðist afleitlega, sem ég kenndi aðallega sykrinum um. Það sem sykurinn gerir er að hann þynnir eplasafann og eplabragðið, og niðurstaðan verður mjög “harsh” og “boozy”. Afar lítið eplabragð og eftir litlu að sækjast, finnst mér. Margir aðrir hafa bruggað og verið ánægðir með, en ég var alls ekki sáttur við mína niðurstöðu.

Nú eru allnokkur ár liðin frá síðustu sídertilraun hjá mér. Ég datt niður á eplaþykkni frá rynkeby hjá einni heildsölu hér í bænum. Við nánari skoðun kom í ljós að það eru engin viðbætt efni í því, bara gerilsneytt með því að leifturhita. Þetta er semsagt 100% eplasafi, sem hefur verið soðinn niður þannig að einn lítri af þykkni gerir 5 lítra af eplasafa. Ég hugsaði með mér að þarna gæti ég hugsanlega tikkað í allnokkur box sem ég hef viljað reyna að gera með síder.

 • Gera eplavín/síder sem er yfir 5%
 • Gera eplavín sem er ekki með viðbættum sykri
 • Gera eplavín úr hráefni sem er auðvelt að nálgast

Ég splæsti í kassa af þessu þykkni, 12 fernur. Fyrsta verk var að finna út eðlisþyngdina á því. Fyrsta mæling var með þykknið óþynnt, og þá kom í ljós að sykurmælirinn mælir ekki alveg svo hátt. Ég þynnti það því 50/50 með vatni og fékk út að eðlisþyngdin á því óblönduðu er um 1.240. Næs!

Tilraun 1

2 karton af þykkni + vatn í 3.8 lítra flösku og einn pakki af mangrove jacks síder geri. Guggnaði svo eftir smá OG pælingar og tók ca 300ml af þykkni úr og toppaði upp með vatni. OG: Nennir einhver að
reikna? FG: 0.999, á 10 dögum. Frekar þurrt, en samt slatti eplabragð eftir. Ansi boozy, en bragðast fínt. Bara 10 daga gamalt, þannig að þetta hefur hellings potential. Sennilega um 16%, ef OG hefur verið í kringum 1.120. Kannski maður setji gerstopp í og svo smá þykkni til að sæta aftur og fá meiri epli í? Hver veit!
Ég er frekar hissa á hvað þetta gerjaðist vel og hressilega. Gerið er sennilega með einhverri næringu pakkað með, og ég overpitchaði nokkuð hressilega með því að setja 10gr af geri í gallon af síder. En samt, ég er frekar impressed.

Tilraun 2

1 karton af þykkni í gallon flösku og fyllt upp með vatni. Fermentis cider ger. OG uþb 1.07, FG ekki mælt, en gerum ráð fyrir svipuðu og í tilraun 1 og þá er þetta 9.3%. Þetta er miklu minna boozy en stóra lögnin, en ennþá frekar þurrt og þolir alveg að vera aðeins sætara. Minna eplabragð.

Pælingar

Mér finnst þetta hafa hellings potential, og það væri gaman að vinna aðeins meira með þetta. Til dæmis:

 • Kolsýra. Ég er bara búinn að smakka sýni úr gerjunarílátunum. Mun gefa þessu 1-2 vikur í viðbót áður en ég set á flöskur eða kút.
 • Sæta þetta eftirá – Setja gerstopp í og svo smávegis þykkni til að sæta. Kolsýra svo í kút og njóta. Einnig hægt að nota sætuefni eins og stevíu, sem hefur þann kost að það gerjast ekki og því hægt að eftirgerja í flösku til að fá kolsýru
 • Aðrar viðbætur, t.d. ávextir eða annað til að poppa síderinn aðeins upp.
 • Prófa enn léttari útgáfu, eða gera útgáfu úr góðum eplasafa og sæta hann svo bara með þykkninu.
 • Prófa annað ger, t.d. nottingham eða jafnvel S-04. Gerjar kannski ekki jafn langt niður og skilur eftir meiri sætu. Einnig er London ESB frá Wyeast vinsælt í svona síder fikt. Ekki víst að þau myndu ráða við stóra bróðirinn samt.

Notað korn eftir bruggun – Hvað get ég gert við hratið?

Wednesday, June 29th, 2016

Hrat sem verður eftir þegar maður er búinn að gera bjór er hægt að nýta á ýmsa vegu og óþarfi að henda því í ruslið þar sem það verður engum að gagni.
Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað er sniðugt að gera við notað korn (hrat) eftir all grain bruggun.

Í garðinn

Hrat er frábært í moltugerð – Það inniheldur uppbyggingarefni sem vantar oft í moltuna og brotnar auðveldlega niður.
Einnig er gott að dreifa því yfir beð og gras flatir þar sem kornið er stút fullt af næringu fyrir plöntur þó það sé nær gagnslaust fyrir okkur.
Fuglar og önnur smádýr kroppa einnig í kornið, sérstaklega á veturna þegar það er minna um mat fyrir þau. Ég hef séð mýs, fugla og fleira standa á beit í hratinu í garðinum mínum um miðjan vetur.

Handa dýrunum

Kýr, kindur og hestar éta hratið með bestu lyst.

Hundanammi

Einnig er auðvelt að gera hundanammi úr hratinu, til dæmis eftir þessari uppskrift:

 • 4 bollar hrat
 • 2 bollar hveiti
 • 1 bolli hnetusmjör (án  viðbætts sykurs) – Einnig hægt að nota t.d. sæta kartöflu eða niðursoðið grasker
 • 2 egg

Aðferð

Öllu blandað saman í skál, etv auka hveiti bætt við ef deigið er óþarflega blautt.

Deigið er flatt út í ca 1-1.5cm þykkt lag og skorið út í passlega stærð fyrir hundinn þinn. Einnig hægt að hnoða í kúlur og fletja út eða jafnvel nota smákökuform til að gera nammið skemmtilegt í laginu.

 • Bakað á 175°C í 30 mín
 • Bakað á 125 í 2-3klst til að þurrka almennilega og auka geymsluþol
 • Leyfa að kólna og geyma svo í loftþéttum poka eða íláti

Ef nammið náði að þorna almennilega í ofninum þá á það að geymast í margar vikur án vandræða. Til þess að lengja geymsluþolið enn frekar getur verið sniðugt að skipta namminu upp í nokkra poka og geyma í frysti.

Handa mannfólkinu – Brauð

Ég hef verið að leika mér með uppskrift að brauði sem ég geri iðulega eftir bruggun. Einnig er hægt að frysta hratið ef maður vill eiga það í bakstur til lengri tíma. Hratið gefur skemmtilega áferð í brauðið og auka bragð. Bragðið er mismunandi eftir hvernig bjór var gerður, til dæmis ef maður er að gera dökkan bjór þá verður brauðið skemmtilega litað af því.

Hér er uppskriftin af mínu brauði.

 • 400gr hveiti eða heilhveiti – Mér finnst gott að nota ca 50/50
 • 300ml volgt vatn (30°C eða svo)
 • Lúka af hrati
 • 1tsk salt
 • 1tsk ger

Öllu blandað saman í skál og hrært saman með sleif. Skálin er svo látin standa í herbergishita í amk 12 klst. 12 klst duga fínt, en ef maður lætur standa lengur þá fer að koma súrdeigsfílíngur í brauðið.

Ofninn er hitaður í 225°C og svo skelli ég deiginu í passlega stórt eldfast mót með loki og set í ofninn. Eftir ca 40mín tek ég lokið af og baka í ca 20mín í viðbót.

Einnig er hægt að fara eftir öðrum no knead uppskriftum af netinu. Til dæmis þessari.

Meira um vatnsviðbætur

Monday, April 13th, 2015

Ég hef fengið töluvert af spurningum um vatnsviðbætur og ákvað að reyna að útskýra einhverja fleiri punkta hérna í sambandi við það.

Vatnið mitt

Hvernig finn ég út úr því hvaða byrjunargildi á vatninu ég á að nota?

Nú þú hefur samband við vatnsveituna þína og færð upplýsingar um efnasamsetningu neysluvatns. Ég fékk tölur frá 2010 frá Orkuveitunni sem er hægt að sækja hér. Það vill til að það er ekkert voðalega mikilvægt að þessar upplýsingar séu glænýjar, því vatnið breytist voðalega lítið yfir tíma.

Úr þessu skjali má finna Sýrustig, Klóríð (Cl), Súlfat (SO4), Kalsíum (Ca), Magnesíum (Mg) og Natríum (Na). Það sem vantar uppá til að fylla út EZ water er Bicarbonate eða Alkalinity, en það er einfalt að finna út úr því með smá excel tilfæringum í boði Braukaiser.

Hér er ég til dæmis búinn að finna út Bicarbonate fyrir mitt vatn skv ofangreindu skjali frá orkuveitunni. (Lokah. Árbæjarstíflu)

Ég fikraði mig bara í bicarb tölum þar til ion balance var komið í 0,0.

Og hér er það komið í EZ

Þessar mælingar eru gildar fyrir stóran part af Höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki viss hvar mörkin eru dregin þannig að það borgar sig að tala við vatnsveituna þína til að staðfesta hvaða mælingar eiga við hjá þér.

Af hverju að nota bætiefni?

Það eru nokkur steinefni/sölt sem er algengast að nota. Þau ýmist hækka eða lækka pH gildið og breyta augljóslega eiginleikum vatnsins. Það er til dæmis oft talað um Klóríð / Súlfat hlutfall í uppskriftum. Í EZ er til dæmis talað um að Ca/SO4 hlutfall undir 0.77 auki fundna (perceived) beiskju, 0,77-1.3 sé í jafnvægi og að yfir 1.3 auki “maltiness”. Það eru þó töluvert misjafnar skoðanir á þessu og ekki úr vegi að lesa  sér aðeins meira til um það ef menn hafa áhuga á.

Þar komum við að einum punktinum. Steinefnin gera meira en bara breyta pH gildi virtsins / Bjórsins. Þau breyta einnig áferð bjórsins og geta haft áhrif á það hvernig gerið vinnur.

Hvaða bætiefni?

Efni sem hækka pH

Matarsódi (Baking soda) NaHCO3

Aðallega notaður til að hækka pH eða hækka Natríum magn í vatninu.

Kalk (CaCO3)

Inniheldur Kalsíum en getur verið erfitt að nota þar sem kalk leysist ekki alltaf jafnvel upp í vatninu og því erfitt að fá nákvæma tölu á áhrif þess á vatnið.

Slaked lime (Ca(OH)2)

Ekki mjög algengt í bjórgerð. Kalk venjulega notað frekar ef það á að hækka pH.

Efni sem lækka pH

Gifs (Gypsum) CaSO4

Gifs er mjög algengt í bjórgerð. Það bætir Kalsíum og Súlfati í vatnið.

Kalsíum Klóríð (CaCl2)

Kalsíum klórið er eins og gifs frekar algengt. Það bætir Kalsíum og Klóríði í vatnið.

Epsom Salt (MgSO4)

Epsom salt er eina af “algengu” efnunum sem bætir Magnesíum í vatnið. Það er því oft notað einhverjum mæli, en þá getur þurft að nota önnur efni til þess að ná pH upp aftur ef það þarf að bæta miklu Magnesíum í bruggvatnið. Epsom salt er eina efnið sem er ekki til í brew.is eins og er. Það má þó oft finna í apótekum.

Sýrur

Að lokum er mjólkursýra eða súrmalt oft notað til að lækka pH í meskingu án þess að hafa áhrif á steinefnainnihald vatnsins.

Vatnsprófílar nokkurra borga

City Calcium
(Ca+2)
Magnesium
(Mg+2)
Bicarbonate
(HCO3-1)
SO4-2 Na+1 Cl-1 Cl / SO4 Beer Style
Pilsen 10 3 3 4 3 4 1,00 Pilsener
Dortmund 225 40 220 120 60 60 0,50 Export Lager
Vienna 163 68 243 216 8 39 0,18 Vienna Lager
Munich 109 21 171 79 2 36 0,46 Oktoberfest
London 52 32 104 32 86 34 1,06 British Bitter
Edinburgh 100 18 160 105 20 45 0,43 Scottish Ale
Burton 352 24 320 820 44 16 0,02 India Pale Ale
Dublin 118 4 319 54 12 19 0,35 Dry Stout

Fengið frá John Palmer.

Lokaorð (í bili)

Eins og sjá má þá er að mörgu að líta þegar hugað er að bætiefnum í vatnið. Það þarf þó ekki að vera flókið með hjálp EZ water og alveg tilvalið að fikra sig áfram með vatnsviðbætur. Tilraunamennskan er eitt af því sem er svo skemmtilegt við þetta hobbý. Maður nær einum hlut góðum og þá rekst maður á bloggpistil á alveg nýjum hlut sem maður veit ekkert um 🙂

Ég hvet alla til að prófa sig áfram með þetta. Vatn hér á Íslandi er venjulega mjög mjúkt og með lítið af steinefnum og er því alveg tilvalið til að leika sér með.

Vatnsviðbætur

Friday, March 20th, 2015

Eitt sem ég minnist ekki á í póstinum þar sem ég fjalla um hvað veldur lágri eðlisþyngd er að pH gildið í meskingu spilar þar stóran part.

Í mörgum tilfellum erum við (bruggarar) einfaldlega að meskja óþarflega basískt. Til þess að ensímin sem eru virk í meskingunni hafi það sem best þá viljum við meskja við uþb pH 5.3-5.6.

En hvað er til ráða? Hvernig stjórnum við pH í meskingunni?

Þá kemur EZ Water Calculator til bjargar. EZ er skjal sem hjálpar manni að stilla vatnsviðbætur og pH af til þess að ná þeim prófíl sem maður vill fá í bjórinn og meskinguna.

Það sem maður þarf til að geta notað EZ er lýsing á vatninu sem þú ætlar að nota í bjórinn. Það er í flestum tilfellum frekar einfalt að fá þær upplýsingar frá vatnsveitunni þinni. Hér eru til dæmis upplýsingar um kalt vatn í Hafnarfirði og Kópavogi frá 2013. Það er sennilega alveg óhætt að heimfæra þessar upplýsingar á höfuðborgarsvæðið allt.

Gildin sem við þurfum úr þessu skjali til að nota í EZ eru Calcium 5.05, Magnesium 1.98, Sodium 8.52, Chloride 9.19, Sulfate 2.8 og loks Bicarbonate 22.5. Bicarbonate er  ekki gefið upp í skjalinu en það er hægt að finna út úr því út frá öðrum gildum.

Næst þarf að gefa upp vatnsmagn og skolvatn. Í mínu tilfelli þá nota ég ekkert skolvatn því ég brugga alltaf með BIAB aðferðinni.

Svo stimplar maður inn kornið sem maður ætlar að nota – Því kornið hefur mikil áhrif á pH gildi meskingarinnar. Mikið af ljósu korni og þá er líklegt að maður þurfi að lækka pH gildið á bjórnum, en ef það er mikið af dökku og ristuðu korni þá er líklegt að maður þurfi að hækka pH gildið.

Hér er ég búinn að stimpla inn tvöfalda lögun af Bee Cave:

Svo er það bara spurning um að hræra í magninu af steinefnum og sýru til þess að hitta á pH og vatnsprófíl eins og maður vill hafa hann. Hér er dæmi um vatnsprófíla fyrir hina og þessa bjóra.

Hér er ég búinn að fikta eitthvað í þessu og lenda á prófíl sem mig langar að prófa fyrir bee cave til að ýta undir hoppyness. Það er afar umdeilt hvernig maður á að stilla þetta af og hvaða prófílar henta hvaða bjórum og því er best að prófa sig bara áfram með þetta og finna út úr þessu sjálfur.

Flest af þessum efnum má fá hjá mér í brew.is og um að gera að prófa sig áfram með þetta. Þetta er alls ekki eitthvað sem þarf að pæla í á fyrsta bjór, en það getur verið gaman að skoða vatnsviðbætur til þess að koma bjórnum sínum einu skrefi lengra. Til þess að vera alveg viss á pH breytingum er ráðlegt að vera með pH mæli eða pH strips. Það er eitthvað sem verður vonandi til hjá mér á næstu mánuðum. Þangað til þá á að vera óhætt að fara eftir EZ, gefið að maður sé með réttar (nýlegar) mælingar á vatni frá sinni vatnsveitu.

Þessi pistill klórar rétt aðeins í yfirborðið á þessum pælingum. Ég er sjálfur tiltölulega ný byrjaður að pæla í þessu og hef grunn þekkingu í þessum málum. Það er hægt að kafa mun dýpra í vatnsprófíla og snefilefnapælingar, en ég læt þetta duga í þessum pistli.

Ítarefni

Góður lager á stuttum tíma

Friday, December 12th, 2014

Það eru margar ástæður fyrir því að sumir vilja forðast það að gera lager. Tvær helstu eru sennilega þær að fólk hefur ekki almennilega aðstöðu til þess að stýra hitastiginu í gerjuninni, og hin er sú að fólk nennir ekki að bíða í margar vikur eftir lagernum og halda gerjunaraðstöðunni upptekinni.

Herra bruggspekingur (Brulosopher) er með prýðis lausn á amk öðru af þessum vandamálum. Mér datt í hug að það væri sniðugt að þýða pistilinn hans lauslega svo við hér á klakanum getum notið. Þetta á við um margar léttar tegundir af lager, t.d. Marzen, Schwarzbier og Þýskan Pils.

 1. Kældu virtinn í pitch hitastig (9-11.5°C), notaðu nóg af geri (reiknivél), stilltu hitastigið á gerjunarkælinum á gerjunarhitastig (10-12,5°C) og gerjaðu bjórinn í 5 daga.
 2. Á 5. deginum ætti bjórinn að hafa gerjast um 50% (attenuation). Taktu hitanemann af gerjunarílátinu og hækkaðu hitann um 2 gráður. Hækkaðu hitann um 2 gráður á 12 tíma fresti þangað til að hann er kominn í 18°C og leyfðu bjórnum svo að hvílast í 2-3 daga við það hitastig.
 3. Eftir 2-3 daga í 18°C lækkaðu hitann um 2,5 gráður á 12 klst fresti þangað til að hitinn er kominn að frostmarki, eða því sem næst (0°C) og láttu standa í 3-4 daga
 4. Fleyttu bjórnum köldum á kút, settu þrýsting á kútinn og leyfðu bjórnum að standa í kæli í um viku áður en þú byrjar að njóta hans.

Ég hef prófað þessa aðferð og hún skilar ótrúlega crisp og fínum lager á uþb 3 vikum.

Kostirnir við þessa aðferð eru margir, en þar vegur tíminn sérstaklega þungt. Þetta virkar best ef maður er með kúta til að fleyta bjórnum í en má sennilega staðfæra á flöskur með eitthvað lengri tíma.

Það sem er mikilvægast við þessa aðferð er að nota nóg af geri, og að stjórna hitanum nákvæmlega. Án nákvæmrar hitastýringar væri ekki mögulegt að gera þetta á svona stuttum tíma.

Uppskrift – Léttur Pilsner

Nú vantar bara uppskriftina. Ef þú ert að gera lager í fyrsta skipti þá er sterkur leikur að byrja á einhverju einföldu. Góður pilsner er venjulega afar einfaldur. Og ágætt að taka það fram að pilsner er ekki áfengislaus bjór heldur er hann nefndur eftir borginni Plzeň í Tékklandi.

Tékkneskur pilsner er venjulega frekar beiskur með lítið body.

Estimated OG: 1,050 SG
Estimated Color: 3,3 SRM
Estimated IBU: 40,5 IBUs

1,50 tsp      Calcium Chloride (Mash 60,0 mins)  
4,25 kg      Premium Pilsner (Weyermann) (2,0 SRM)  93,4 %    
0,30 kg      CaraPils (Weyermann) (2,0 SRM)      6,6 %     
21,0 g       Magnum [14,00 %] - Boil 60,0 min     35,3 IBUs   
30,0 g       Saaz [4,00 %] - Boil 10,0 min      5,2 IBUs   
1,00 Items     Whirlfloc Tablet (Boil 10,0 mins)       
2,0 pkg      Saflager Lager (DCL/Fermentis #W-34/70)

Mesking í 66°C. Gerjunaraðferð sem er lýst hér að ofan. Einnig hægt að nota blautger, til dæmis 2124 Bohemian Pilsner eða 2042 Danish Lager frá Wyeast. Ég á hvort tveggja oft á lager. Ath að það þarf að gera ~2 lítra starter eða nota 2 pakka.

Kalsíum Klóríð er valkvætt, en það er algengt að fikta svolítið í vatninu þegar menn gera pilsner.

Nú hefur þú enga afsökun lengur og getur drifið í að gera lagerinn sem þig hefur alltaf langað að gera 🙂

Hreinsiefni – Hver er munurinn??

Thursday, November 6th, 2014

Eins og margir póstar hérna á blogginu þá er þessi til kominn vegna þess að ég er oft spurður af sömu spurningunni. Það er því tilvalið að skrifa niður nokkra punkta.

Á brew.is er ég að selja 4 mismunandi hreinsiefni. Þau eru öll mismunandi og henta fyrir mismunandi hluti. Það má skipta efnunum í tvo megin flokka;  sótthreinsiefni og hreinsiefni.

Sótthreinsiefni eru gríðarlega góð í því að drepa lang flesta gerla og bakteríur sem maður rekst á í brugginu. Þau eru hinsvegar ekki góð í að leysa upp óhreinindi og virka best á hluti og fleti sem eru þegar hreinir. Í þessum flokki eru joðófór og star san. Þau eru þægileg vegna þess að það þarf ekki að skola eftir notkun, þó það séu einhverjir dropar af blönduðu efni í t.d. flöskum þá er í góðu lagi að fylla á þær samt.

Hreinsiefni eru hinn flokkurinn, en í honum eru klórsóti (IP-5) og PBW. Þau leysa upp allskonar erfið óhreinindi og lífrænar leyfar. Þau hafa þó þann ókost að það þarf að skola vel eftir notkun á þeim til þess að fá ekki óæskileg efni og bragð í bjórinn.

Förum létt yfir hvert efni fyrir sig. Hvað ætli séu kostir og gallar hvers efnis og af hverju þarf að vera svona mikið úrval til að flækja málin?

Glyserín Joðófór – Joð

Joð er sótthreinsiefni sem er ódýrt, öruggt og hefur verið notað af bruggurum í langan tíma. Það þarf ótrúlega lítið magn af efninu, eða um 1ml á lítra til þess að gera sótthreinsilausn sem drepur lang flesta gerla á 30 sekúndum. Það sem fer helst í taugarnar á fólki með joðið er að það litar öll plast áhöld sem það kemst í snertingu við brún. Til dæmis gerjunarfötur. Liturinn er þó ekki slæmur, hann hefur engin áhrif á bragð eða endingu.

Snertitími: 30 sekúndur

Geymsluþol eftir blöndun: Lítið. Verður að nota strax

Star San

Star San virkar næstum nákvæmlega eins og joðið. Það sem skilur efnin aðallega að er að star san freyðir betur og liggur því oft betur á lóðréttum flötum. Einnig litar star san plast áhöld ekki og það geymist lengi eftir að það hefur verið blandað. Það er þægilegt vegna þess að þá er hægt að geyma t.d. spreybrúsa með starsan blöndu og nota þegar maður þarf að sótthreinsa eitthvað smotterí, til dæms sykurflotvog þegar það á að taka mælisýni.

Helsti ókostur star san er að það kostar töluvert meira en joð. Það er þó ekki jafn slæmt og það sýnist í fyrstu því vegna geymsluþolsins má færa rök fyrir því að star san brúsi geti enst mun lengur en joðbrúsi.

Snertitími: 30sek

Geymsluþol eftir blöndun: 4-6 vikur.

IP-5 Alfa Gamma – Klórsóti

Klórsóti er í raun bara klór í þurru formi. Hann er sérstaklega duglegur að leysa upp lífrænar leifar og virkar sérstaklega vel þegar hann er notaður með heitu vatni. Klór er ætandi og því er mikilvægt að láta málm hluti ekki liggja í klórsóta nema í örstutta stund. Ég mæli ekki með því að nota klórsóta til þess að þrífa t.d. kúta og fleira úr stáli. En hann hentar mjög vel til að leysa t.d. upp þornaða drullu í bjórflöskum.

Powdered Brewery Wash – PBW

PBW er efni sem var hannað í samstarfi við Coors af 5 star chemicals. Það er sérhannað fyrir notkun í brugghúsum og vinnur sérstaklega vel á öllum óhreinindum sem koma upp þar. Það fer vel með alla málma og má láta liggja á t.d. kútum, pottum og hitaelementum, jafnvel yfir nótt. Það er einnig hættulaust umhverfinu og þægilegt í meðhöndlun. Ókosturinn við það er að það er töluvert dýrara en klórsótinn.

 

Þessi stutti pistill verður vonandi einhverjum að gagni. Ef þú hefur einhverjar spurningar eða ábendingar þá endilega kommentaðu hérna fyrir neðan. Það væri líka gaman að heyra ef þú hefur einhverjar uppástungur um hvað ég ætti að skrifa um næst?

Besti IPA Bandaríkjanna, 2014

Wednesday, September 17th, 2014

Á hverju ári er haldin keppni í Bandaríkjunum á vegum American Homebrewers Association (AHA), sem eru hagsmunasamtök heimabruggara í USA. Keppnin er gríðarstór og til að koma bjór í keppnina þarf hann fyrst að komast í gegnum ítrekaðan niðurskurð áður en bestu bjórarnir eru bornir saman.
Keppt er í öllum flokkum BJCP, sem eru eitthvað yfir 30 flokkar þegar maður telur alla undirflokkana með.

Þetta árið vann maður að nafni Kelsey McNair IPA flokkinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti, því hann hefur unnið oftar en einu sinni, með ansi líkan korngrunn.

Vinnings uppskriftin í hverjum flokki er alltaf gerð aðgengileg eftir keppnina, fyrst í blaði AHA, Zymurgy og svo á netinu.

Kíkjum aðeins á vinnings uppskriftina, sem er fyrir 53 lítra lögn (Ég breytti uppskriftinni ögn skv hráefni sem ég á á lager)

Korn

14,17kg Pale Ale Malt
0,6kg Carapils
0,23kg Caramunich II

Humlar

FWH: 28gr Chinook
60m: 70gr Warrior
30m: 57gr Columbus
10m: 57gr Simcoe
10m: 57gr Amarillo
0m: 57gr Simcoe
0m: 57gr Amarillo
0m: 57gr Citra
0m: 57gr Centennial
0m: 57gr Columbus
HB: 28gr Simcoe
HB: 28gr Amarillo
HB: 28gr Citra

FWH: First wort hop. Sett í um leið og mesking klárast – þeas sett t.d. þegar pokinn er tekinn uppúr.

HB: Hopback – Humlarnir eru settir í græju sem keyrir virtinn í gegnum á meðan virtinn er kældur. Fáir eiga slíkar græjur þannig að það væri hægt að setja þá í whirlpool í staðinn, til dæmis.

Gerjun

WLP001 (Wyeast 1056 eða US05)

Gerjað í 7-10 daga við 19°C
Secondary (þurrhumlun) í 7 daga við 19°C

Þurrhumlun

57gr af hverju: Simcoe, Amarillo, Citra, Centennial, Columbus

Þurrhumlun í secondary – helmingur um leið og fleytt er í secondary, rest þegar 3 dagar eru búnir af secondary.

Annað

3stk Whirfloc, 2stk Servomyces gernæring (eða wyeast gernæring, 2tsk),

OG 1.067

FG 1.011

IBU 120

SRM 5

Meskja við 67°C í 60mín. Mashout í 76°C og halda því í 15mín.

Soðið í 90mín

Léleg nýtni í bruggun – ástæður og ráð

Saturday, July 19th, 2014

Fólk hefur oft samband við mig vegna vandræða við lélega nýtni, þ.e.a.s. þegar fólk fær lægra OG en búist var við samkvæmt uppskrift. Það geta verið margar ástæður fyrir því, en förum yfir þær sem mér dettur í hug núna.

Korn ekki hrært vel

Þegar maður blandar korninu í vatnið er mjög mikilvægt að hræra vel og vandlega í því. Það er vegna þess að við það að hella korninu í vatnið myndast kögglar sem er nauðsynlegt að brjóta upp. Ef maður gerir það ekki þá er maður bara að meskja utan á kögglunum og kornið inn í þeim sleppur við meskinguna. Einnig er mikilvægt að hræra vandlega til þess að hitastigið í grautnum sé jafnt allsstaðar. Þessi skeið er snilld og beyglast ekki í hræri átökunum.

Hitastig í meskingu og dough in

Hitastig í meskingu stýrir því hvað hlutfall gerjanlegra sykra kemur úr meskingunni. Ef maður til dæmis byrjar of heitt í meskingunni, þá er hætt við því að maður slökkvi á mikið af ensímunum sem sjá um að breyta sterkjunni í sykrur. Það er því mikilvægt að hafa ekki of heitt í byrjun meskingar, heldur bara passlegt eða um 65-69 gráður eftir að maður er búinn að hræra. Algengast er að miða við um 66-67 gráður, en það fer algjörlega eftir uppskriftinni. Hærri hitastig gefa illgerjanlegri virt (hærra FG) á meðan lægri hitastig gefa gerjanlegri virt (lægra FG). Hér getur líka einangrun á meskiílátinu komið inn, því ef hitastigið lækkar um meira en 1-2 gráður í meskingunni þá getur það haft áhrif á nýtnina og vert að skoða að einangra ílátið betur.

Lengd meskingar

Oftast eru 60mín feykinægar fyrir meskinguna, en ef maður er í vandræðum með nýtnina þá getur verið gott að lengja hana í 90mín. Það á sérstaklega við um þegar maður er að meskja kalt, t.d. við 64-6 gráður. Þetta á einnig við um stærri bjóra, t.d. yfir OG 1.070.

Mashout

Mashout er þegar maður hitar meskinguna upp í 76 gráður. Samkvæmt minni reynslu þá er þetta skref critical til að ná fullri nýtingu. Einfaldasta leiðin til að ná mashouti er að geyma ca 5 lítra af vatni í byrjun meskingar, og bæta þeim sjóðandi heitum í meskifötuna í lok meskingar.

Mölun á korninu

Ef kornið er of gróft malað þá getur verið erfitt að ná fullri nýtni. Það á ekki að vera vandamál með korn malað hjá mér, ég brugga sjálfur með korni malað úr minni kvörn á 2-4 vikna fresti og fæ alltaf 70-75% nýtni.

Vatnsmagn

Ef maður er með of mikið af virt í lok meskingar eða suðu þá er hann augljóslega þynnri en uppskriftin gerir ráð fyrir. Þá er í lagi að sjóða t.d. aðeins lengur, en ekki sjóða humlana lengur en uppskriftin gerir ráð fyrir

Hátt gravity

Þegar maður er að brugga stóra bjóra (t.d. yfir 1.070 eða svo, þá er eðlilegt að nýtnin fari niður. Því þarf maður að gera ráð fyrir því í byrjun bruggunar með því að nota meira korn eða jafnvel bæta extracti við í suðunni. Því hærra OG, því meira korn þarf maður.

Skakkur sykurmælir

Sykurmælar eiga að að sýna 1.000 þegar maður stingur þeim í vatn sem er 20°C. Ef hann sýnir hærra eða lægra er hægt að gera ráð fyrir því þegar maður mælir virt. Ath að það er mikilvægt að sykurmælirinn sé alveg heill – Engar sprungur eða brot í honum.

Skakkur hitamælir

Hægt er að komast að því hvort hitamælir sé réttur með því að stinga honum í sjóðandi vatn. Í sjóðandi vatni á hann að sýna um 98°C (eftir því hve hátt yfir sjávarmáli maður er með). Svo til að prófa neðri mörkin er hægt að fylla vatnsglas með muldum ísmolum og fylla upp í með köldu vatni. Þá á mælirinn að sýna 0°C eða því sem næst.

Hitastig á virti þegar mælt er

Sykurmælar eru allir gerðir með ákveðið hitastig í huga – Venjulega 20°C. Ef vökvinn er heitari en mælirinn er gerður fyrir þá sýnir mælirinn minna en raunhitastig er. Það munar ekki mjög miklu, t.d. 4 punktur (0.004) ef maður mælir við 35°C. En það er ágætt að hafa það í huga. Hér er reiknivél sem getur reiknað þetta fyrir þig.

Eins og sjá má eru flest vandamál við nýtni komin frá meskingunni. Það er því mikilvægt að vanda sig sérstaklega með öll hitastig í meskingu og gefa sér góðan tíma í hana. Vonandi hjálpar þetta einhverjum. Endilega kommenta ef ykkur dettur eitthvað fleira í hug.

Algeng spurning: Á ég að nota poka fyrir humlana?

Thursday, June 26th, 2014

Stutta svarið: Ég nota þá aldrei.

Lengra svarið: Ég nota aldrei poka fyrir humlana, hvorki í suðu né í gerjun þegar ég þurrhumla vegna þess að þá er maður oft að takmarka snertingu humlanna við virtinn og bjórinn. Humlarnir er fljótir að sökkva þegar maður er búinn að slökkva á suðunni og því lítið mál að takmarka magnið af humlum sem fara í gerjunarfötuna. Og þó það færi eitthvað, eða allt í gerjunarfötuna, þá skiptir það engu máli því það sekkur einmitt líka niður þar og festist í gerkökunni.
Þegar maður þurrhumlar með humlakögglum þá eru þeir einnig frekar fljótir að sökkva á botninn í gerjunarfötunni og allir sokknir eftir þessa 5-7 daga sem maður þurrhumlar venjulega.

Eina undantekningin sem ég geri og nota poka fyrir humlana er þegar ég þurrhumla í kút. Annars væri ansi mikið af humlum í glasinu hjá manni.

Bottom line: Algjör óþarfi, en alveg leyfilegt ef maður hugsar til þess að pokinn sem humlarnir fari í sé nógu stór. Ef pokinn er lítill þá fær maður minni beiskju og bragð úr humlunum en maður gerði ráð fyrir og getur sett uppskriftina í ójafnvægi.

Pliny the Elder 2.0

Tuesday, April 22nd, 2014

Pliny 2.0

Pliny the Elder sem ég bruggaði fyrir um 2 árum er einn af bestu bjórum sem ég hef bruggað, amk í minningunni. Þegar 2013 uppskera af amerískum humlum datt í hús hjá mér þá fannst mér gráupplagt að láta reyna á pliny aftur, í þetta skipti með uppskrift frá bertus brewery.

Fyrir forvitna þá er Pliny the Elder með allra bestu Double/Imperial IPA í heimi, skv bæði ratebeer og beeradvocate. Mig hefur lengi langað til að smakka hann, en það er ekki alveg gengið að því að nálgast flösku af bjórnum, sérstaklega hér á klakanum þannig að klónin verða bara að duga mér þangað til að ég fer í heimsókn til Russian River brugghússins í Kaliforníu sem bruggar Pliny.

Ég notaði gamalt humla extract sem ég átti í staðinn fyrir warrior humlana til þess að minnka humladrulluna aðeins. Hún er alveg næg fyrir því það fer jú slatti af humlum í þennan bjór.

Ég þurrhumlaði í rúma viku í gerjunarfötu, fleytti svo af henni á kút þar sem ég setti seinni þurrhumlunar skammtinn. Ég smakkaði bjórinn flatan eftir tæpa viku í kút og þá var hann næstum alveg flatur og mjög skýjaður vegna humlanna. Hop haze fer svo til baka eftir 1-2 vikur og þá ætti bjórinn að vera orðinn kolsýrður og nokkuð tær. Þrátt fyrir þetta þá er hann frábær í nefi og lofar mjög góðu. Ég get klárlega mælt með þessari uppskrift.

Recipe Specifications
--------------------------
Boil Size: 63,60 l
Post Boil Volume: 53,37 l
Batch Size (fermenter): 45,00 l  
Bottling Volume: 42,20 l
Estimated OG: 1,072 SG
Estimated Color: 7,2 SRM
Estimated IBU: 96,9 IBUs
Brewhouse Efficiency: 70,00 %
Est Mash Efficiency: 80,7 %
Boil Time: 90 Minutes

Ingredients:
------------
Amt          Name                   Type     #    %/IBU     
12,70 kg       Pale Malt (Weyermann) (3,3 SRM)     Grain     1    89,6 %    
0,51 kg        CaraPils (Weyermann) (2,0 SRM)      Grain     2    3,6 %     
0,28 kg        Caramunich II (Weyermann) (63,0 SRM)   Grain     3    2,0 %     
0,68 kg        Corn Sugar (Dextrose) (0,0 SRM)     Sugar     4    4,8 %     
80,0 g        Warrior [15,00 %] - Boil 90,0 min    Hop      5    58,8 IBUs   
20,0 g        Warrior [15,00 %] - Boil 45,0 min    Hop      6    12,6 IBUs   
56,0 g        Simcoe [12,90 %] - Boil 30,0 min     Hop      7    25,5 IBUs   
2,00 Items      Whirlfloc Tablet (Boil 10,0 mins)    Fining    8    -       
155,9 g        Simcoe [12,90 %] - Boil 0,0 min     Hop      9    0,0 IBUs   
56,0 g        Centennial [10,30 %] - Boil 0,0 min   Hop      10    0,0 IBUs   
70,9 g        Columbus (Tomahawk) [14,00 %] - Dry Hop Hop      11    0,0 IBUs   
42,5 g        Centennial [10,30 %] - Dry Hop 13,0 Days Hop      12    0,0 IBUs   
42,5 g        Simcoe [12,90 %] - Dry Hop 13,0 Days   Hop      13    0,0 IBUs   
28,0 g        Columbus (Tomahawk) [14,00 %] - Dry Hop Hop      14    0,0 IBUs   
28,0 g        Simcoe [12,90 %] - Dry Hop 6,0 Days   Hop      15    0,0 IBUs   
14,0 g        Amarillo Gold [8,50 %] - Dry Hop 6,0 Day Hop      16    0,0 IBUs   
14,0 g        Centennial [10,30 %] - Dry Hop 6,0 Days Hop      17    0,0 IBUs

Bragð

Ég er mjög ánægður með þennan, núna er liðinn rúmur mánuður síðan ég bruggaði hann, humlarnir farnir að jafnast út og bjórinn orðinn tær. Það er hugsanlegt að ég myndi vilja breyta humlunum eitthvað smávegis, t.d. setja eitthvað í kringum 5-10mín. Ég veit ekki hvort hann líkist Pliny því ég hef aldrei smakkað originalinn, en góður er hann allavega. Mjög “drinkable” þrátt fyrir frekar hátt áfengishlutfall, sem maður finnur fyrir eftir eitt stórt glas. Bjórinn er örlítið sætur með miklu humla bragði og lykt augljóslega. Mikill karakter frá Amarillo og Simcoe en það fer eitthvað minna fyrir Columbus og Centennial. Heilt yfir mjög vel heppnaður og ég mun klárlega gera einhverja útgáfu af honum aftur, kannski í haust. Nú er farið að vora (örlítið) og þá fer maður óhjákvæmilega að hugsa til léttari bjóra. Fljótlega mun ég t.d. pósta um Saison sem ég bruggaði nýverið og er að klára gerjun.