Archive for February, 2014|Monthly archive page

Kolsýra bjór á kútum

Friday, February 28th, 2014

Ég fæ reglulega spurningar um hvernig maður fer að því að kolsýra bjór á kútum. Það eru nokkrar leiðir í boði, eftir því hvernig maður vill gera hlutina og hvað manni liggur mikið á. Það er einmitt einn kostur við kútana að maður getur komið bjórum í drekkanlegt ástand á örstuttum tíma, t.d. grain to glass á 1-2 vikum ef maður er að gera bjór sem þolir það að vera mjög ungur. Flestir bjórar njóta góðs af meiri rólegheitum, en þetta er allavega hægt ef maður þarf þess.

Náttúruleg kolsýra

Þetta er svipuð aðferð og menn eru vanir með flöskurnar. Hérna er settur sykur í bjórinn – Minna magn en ef maður væri að setja á flöskur og kúturinn geymdur í 2-3 vikur í herbergishita á meðan gerið í bjórnum vinnur á sykrinum. Þannig fær maður náttúrulega kolsýru. Ókosturinn er að maður fær töluvert botnfall í kútinn. Til þess að fá minna af botnfalli í glasið eru kútunum venjulega breytt þannig að bjórrörið, rörið sem fer niður á botn í kútnum er stytt. Það er stytt til þess að rörið sé fyrir ofan botnfallið og maður fái ekki botnfall í hvert einasta glas.  Flutningur á kútnum verður líka leiðinlegri þar sem hver hreyfing hristir upp í gerinu og gerir bjórinn skýjaðari. Það er hægt að minnka áhrifin af þessu með því að stytta rörið og færa svo bjórinn yfir á annan kút, en þá er maður kominn í töluverðar tilfærslur án þess að græða endilega á því að nota aðferðina.

Sumir vilja meina að það sé bragðmunur á bjórnum svona, en flestir eru þó ekki á því. Margir vilja meina að t.d. humlaríkir bjórar séu betri, “ferskari” og meira crisp þegar maður kolsýrir með gaskút.

Rólegheit með gasi

Kúturinn er settur á maintenance þrýsting inn í ísskáp og svo bíður maður bara. Það tekur 2-4 vikur að ná fullri kolsýru í bjórinn, en kosturinn við þessa aðferð er að það eru engar líkur á því að maður of kolsýri bjórinn. Einnig er þetta hentugt með marga bjóra því maður vill hvort eð er gefa þeim nokkrar vikur í þroskun áður en maður byrjar að drekka bjórinn. Það er alltaf hægt að fá sér smá smakk reglulega til að athuga kolsýruna á bjórnum þó hann sé ekki alveg orðinn tilbúinn.

Til þess að finna út hvaða þrýsting maður þarf til að fá rétta kolsýru er best að notast við þessa töflu, þar sem samspil hitastigs bjórsins og þrýstings kolsýru er tekið til greina.

Flýtikolsýring

Þessi aðferð er hentug þegar manni liggur mikið á að koma kolsýru á bjórinn. Þá kælir maður bjórinn í ca. 4 gráður og setur um 40PSI þrýsting á kútinn. Kúturinn er svo hristur hressilega í 30-90 sekúndur. Þá er bjórinn orðinn kolsýrður. Það getur verið erfitt að hita á rétt kolsýrustig á bjórnum með þessari aðferð, en það er ágætt að vita af henni ef manni liggur á. Það er mjög auðvelt að of kolsýra bjórinn og þá lendir maður í því að það kemur stanslaus froða þegar maður reynir að fá sér. Það getur tekið nokkra daga að taka þrýsting af kútnum, og þess vegna mæli ég frekar með næstu aðferð, hálfflýtikolsýringu.

Þegar maður er búinn að hrista kútinn lækkar maður þrýsting niður í serving þrýsting og passar að lækka þrýstinginn á kútnum líka. Margir kranar eru ekki gerðir fyrir þennan þrýsting og geta skemmst ef maður hleypir 40psi á þá. Það á sérstaklega við um party/picnic krana.

Hálfflýtikolsýring

Þetta er sú aðferð sem ég nota mest. Hún felst í því að kúturinn er kældur í ca. 4 gráður, og svo settur 40psi þrýstingur á kútinn. Kúturinn er látinn standa með þeim þrýsting í ~20klst og þá er bjórinn orðinn létt kolsýrður. Ég set kútinn svo á maintenance þrýsting og þá skríður bjórinn upp í rétta kolsýru á nokkrum dögum. Kosturinn við þessa aðferð er að þarna eru litlar líkur á því að fara of hátt með kolsýruna, en samt fá næga kolsýru í bjórinn til að það sé hægt að njóta hans fljótt. Svo er hægt

Skilgreiningar

Serving þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum þegar maður er að dæla af honum. Til dæmis ef maður er með stuttar slöngur á krönunum þá þarf að lækka þrýstinginn til þess að bjórinn freyði ekki of mikið.

Maintenance þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum til að viðhalda réttri kolsýru í bjórnum. Venjulega er reynt að hafa serving og maintenance þrýsting þann sama til þess að þurfa ekki að lækka þrýstinginn í hvert skipti sem einhver ætlar að fá sér bjór. Hægt er að finna út hvað maintenance þrýstingurinn á að vera með því að skoða þessa töflu.

Cornelius kútar 101

Tuesday, February 25th, 2014

2013-07-30 11.22.54 (Small)

Cornelius kútar eru kútar sem pepsi og coke notuðu á árum áður fyrir gosdrykkjasýróp en er að mestu hætt að nota. Bruggarar byrjuðu á einhverjum tímapunkti að nota kútana fyrir brugg vegna þess hve algengir kútarnir voru og auðvelt að þrífa. Kútarnir voru auðfengnir notaðir á mjög lítinn pening og því tilvaldir fyrir heimabruggara. Eftir að coke og pepsi hættu að nota kútana hefur orðið erfiðara og erfiðara að finna notaða kúta á góðu verði, og nú er það þannig að það er næstum ómögulegt. Þess vegna eru flestir farnir að kaupa nýja kúta.

Kútarnir eru daglegu tali kallaðir corny kútar og eru til í 3 “standard” stærðum. 3, 5 og 10 gallona, sem samsvarar uþb 11, 19 og 38 lítra. 5 gallona kútar eru algengastir og eru passlegir fyrir eina lögun af bjór. Það finnast einnig aðrar stærðir frá öðrum framleiðendum.

Munur á coke og pepsi kútum

Munurinn á þessum kútum er lítill, en coke kútarnir eru ögn lægri og breiðari en pepsi kútarnir. Einnig eru mismunandi tengi fyrir gas og bjór. Pepsi nota svokölluð ball lock tengi, en Coke nota pinlock tengi. Kútarnir eru svo venjulega kallaðir ball lock eða pinlock kútar, eftir því hvaða tengi eru á þeim.

Ball lock tengin eru þannig að það er hægt að tengja óvart öfugt, t.d. setja gas tengi á bjórpóstinn, en það er ekki æskilegt þar sem það er örlítill munur á tengjunum og maður getur lent í vandræðum með að ná tenginu af kútnum. Kútarnir eru venjulega með merkingar á póstunum, IN og OUT. IN er fyrir gasið, sem er grátt hraðtengi (grey for gas) og OUT fyrir bjórinn, sem er svart hraðtengi (black for beer).

Pin lock tengin eru mismunandi og ekki hægt að setja tengi á rangan póst.

Pin-Lock-vs-Ball-Lock-Posts-and-Disconnects

 

Viðhald og þrif

Fyrir þá sem eru vanir að tappa brugginu sínu á flöskur þá er þægilegt að hugsa um kútana eins og ein stór flaska. Sömu reglur varðandi hreinlæti og meðhöndlun á bjórnum eiga við um kútana. Það er nauðsynlegt að sótthreinsa kút, til dæmis með joðófór áður en bjór er settur á kútinn. Einnig er nauðsynlegt að taka kútana í sundur öðru hvoru til að þrífa staði þar sem bjórsteinn og önnur drulla getur safnast saman. Klór er hentugur til að þrífa, en það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hann er ætandi og það má ekki láta hann standa á kút. PBW er annað hreinsiefni sem fer betur með stálið og verður til á brew.is innan tíðar.

Geymsla

Bjór er hægt að geyma lengi á kútum án þess að nokkuð gerist. Í raun er ekkert sem takmarkar lengdina sem maður getur geymt bjórinn á kút, heldur bara bjórinn sjálfur. Bjórinn þroskast svipað á kút og flöskum og á einhverjum tímapunkti hættir hann að þroskast í rétta átt. Þannig að ef hreinlætið er í lagi, þá ætti bjórinn að endast jafn lengi eða jafnvel lengur á kút en flöskum.

Þegar maður er búinn að tæma kút þá er sterkur leikur að þrífa kútinn og geyma hann hreinan og fínan. Það getur verið erfiðara að þrífa gamlar ger og bjórleifar úr kútnum ef hann fær að standa í lengri tíma með leifunum.

Búnaður

Það er ýmislegt sem þarf að eiga umfram kútana sjálfa

Kolsýruhylki – Gaskútur: Kolsýran er til þess að kolsýra bjórinn en einnig til þess að ýta honum út úr kútnum þegar maður fær sér.

Þrýstijafnari: Þrýstingurinn beint úr kolsýruhylkinu er of hár fyrir corny kútana og bjórinn. Þrýstijafnarinn sér um að lækka hann.

Hraðtengi: Til að tengja slöngur við  kúta.

Slöngur: Til að koma gasi í kútinn og bjór úr honum

Kranar: Til að skenkja bjórnum. Það eru til ódýrir plastkranar, kranar til að setja á ísskáp og ýmsar útfærslur.

Ísskápur: Það þarf að geyma kúta í ísskáp, bæði til þess að geta kolsýrt bjórinn áreiðanlega – Kolsýra leysist betur upp í köldum vökva en volgum. En einnig vegna þess að flestir vilja bjórinn sinn kaldan.

Að lokum

Þetta hjálpar vonandi einhverjum að koma fyrir sig hvað felst í því að vera með bjórkúta. Ég stefni svo á að skrifa einhverja fleiri pósta um einstaka hluti í kútakerfum, hvernig maður púslar þessu saman o.fl. Ef þú hefur einhverjar spurningar þá er tilvalið að commenta hér og spyrja.

Ordinary Bitter

Thursday, February 20th, 2014

Ég hef ekki verið mikið fyrir bittera hingað til. Maður er einhvernvegin alltaf að elltast við meira bragð af bjórnum, meira action, meira áfengi, meira boddy o.s.frv. En þegar maður er búinn að gera marga áfengisríka bjóra í röð þá fer maður að huga að því að það væri nú ágætt að eiga einn aðeins léttari líka.

Þar kemur bitterinn inn. Bitter er enskur ölstíll, eldgamall og mjög algengur í Bretlandi. Þó stíllinn sé kallaður bitter þá eru bjórarnir venjulega mun mildari í beiskju en amerísku ljósölin sem margir bruggarar eru vanir. Bitter er venjulega með töluverðan karakter frá gerinu og því mikilvægt að nota rétt ger. Þetta eru venjulega frekar áfengislitlir bjórar, alveg undir 3%, í tilfelli ordinary bitter en upp að 6.2%. Það eru þrír bitter stílar til, allir líkir að mörgu leyti en þó með sinn brag.

Bitter er oftast frekar lítið kolsýrður, sem hefur sinn tilgang því áfengislitlir bjórar sem eru mikið kolsýrðir eiga það til að vera svolítið vatnskenndir. Einnig er mikilvægt að njóta bitter frekar í volgari kantinum en margir eru vanir, segjum við til dæmis 10°C.

Bitter stílarnir eru eftirfarandi. Ordinary bitter er áfengisminnstur og ljósastir, og svo verða þeir ögn sterkari og dekkri. Það má lesa meira um stílana hjá BJCP.

Ordinary Bitter

Premium/Best/Special Bitter

Extra Special Bitter (ESB)

Uppskrift

Þá komum við að uppskriftinni. Þessi þróaðist aðeins út frá boat bitternum sem ég gerði fyrir nokkrum mánuðum og kom svona líka þrusu vel út. Ég var líka með uppskrift úr brewing classic styles til hliðsjónar og gerði eitthvað samkurl sem mér fannst geta passað saman. Þessi bjór ætti að verða um 4,1%, appelsínugulur og þægilegur.

Recipe Specifications
--------------------------
Boil Size: 54,99 l
Post Boil Volume: 48,17 l
Batch Size (fermenter): 40,00 l  
Bottling Volume: 37,20 l
Estimated OG: 1,044 SG
Estimated Color: 12,3 SRM
Estimated IBU: 35,5 IBUs
Brewhouse Efficiency: 70,00 %
Est Mash Efficiency: 81,1 %
Boil Time: 60 Minutes

Ingredients:
------------
Amt          Name             Type  #  %/IBU     
7,00 kg  Pale Malt (Weyermann) (3,3 SRM)     Grain  1  87,0 %    
0,35 kg  Oats, Flaked (1,0 SRM)          Grain  2  4,3 %     
0,30 kg  Carared (Weyermann) (24,0 SRM)      Grain  3  3,7 %     
0,25 kg  Caraaroma (Weyermann) (178,0 SRM)    Grain  4  3,1 %     
0,15 kg  Roasted Barley (300,0 SRM)        Grain  5  1,9 %     
85,0 g   Goldings, East Kent [5,80 %] - Boil 60,0 Hop   6  30,2 IBUs   
30,0 g   Goldings, East Kent [5,80 %] - Boil 15,0 Hop   7  5,3 IBUs   
30,0 g   Goldings, East Kent [5,80 %] - Boil 0,0 Hop   8  0,0 IBUs   
1,0 pkg  English Ale (White Labs #WLP002) [35,49 Yeast  9  -       
1,0 pkg  London ESB Ale (Wyeast Labs #1968) [124, Yeast  10 -

Berjamjöður – Melomel

Sunday, February 16th, 2014

Hvað er betra á fallegum sunnudags eftirmiðdegi en að henda í svosem 10 lítra af berjamiði?

Hvur fjandinn er melomel?

Ef við byrjum á byrjuninni, þá er mjöður hunang og vatn sem er gerjað. Venjulega 10-15% áfengi og ekki ósvipað hvítvíni að mörgu leyti. Margir halda að mjöður eigi eitthvað skylt við bjór, en það er rangt og þessir annars ágætu drykkir mjög ólíkir að flestu leyti. Melomel er svo útgáfa af miði þar sem ávöxtum (oftast berjum) er bætt í hann á einhverju stigi gerjunar. Ávextirnir gefa bragð, lit og áferð í mjöðinn. Einnig eru til fleiri útgáfur af miði, t.d. cyser, þar sem vatninu er skipt út fyrir eplasafa eða epli notuð í mjöðinn. Sjá meira á wikipedia fyrir fróðleiksfúsa. Ég hef prófað að gera cyser, sem ég setti á flöskur nýlega. Það má sjá meira um þá tilraun hérna. Ég er enginn mjaðarsérfræðingur, en það er alltaf gaman að tilraunastarfsemi þannig að ég ákvað að gera frekari tilraunir með þetta.

Aðferð

Það sem þú þarft er eftirfarandi

 • Gerjunarílát. Ílátið þarf að vera nokkrum lítrum stærra en magnið sem þú ætlar að gera. Berin taka pláss o.f.frv. Einnig þarftu vatnslás á gerjunarílátið. Ég notaði 10 lítra fötur sem ég á helling af.
 • Ger. Gerillinn þarf að vera hraustur og sprækur og þarf að geta unnið á sykrinum í hunanginu og ávöxtunum. Mismunandi ger henta mis vel fyrir mjaðargerð. T.d. eru kampavínsger venjulega frekar óhentug því þau búa til mjöð sem minnir meira á bensín fyrstu mánuðina eða jafnvel árin.
 • Gernæring. Ger á mjög erfitt með að melta hunang því það er lítið af steinefnum og vítamínum í hunangi sem gerið þarf til að geta gerjað. Því er gernæring mjög mikilvæg. Berin innihalda töluvert af næringu og hjálpa því til, en það borgar sig samt að nota gernæringu. Algengt magn er um ein teskeið per gallon, helmingur fyrst og rest dreift yfir næstu vikuna eða svo.
 • Vatn. Segir sig kannski sjálft, en setjum það samt á listann. Ég notaði 4 lítra.
 • Hunang. Maður gerir ekki mjöð án hunangs. Ég notaði smárahunang úr kosti. Það kostar uþb 2300kr fyrir 2.23kg (5lb).
 • Ávextir / ber, 1kg. Þú getur notað næstum hvaða ávexti sem er (forðast sítrusávexti samt!) Ég notaði súr blönduð ber og súr kirsuber. Ég vildi hafa steina í kirsuberjunum en fattaði ekki fyrr en heim var komið að þau voru steinlaus.
 • Joðófór. Eins og í bjórgerð þá er hreinlæti mjög mikilvægt. Allt þarf að vera sótthreinsað, t.d. fata, vatnslás, skeið o.s.frv. Ég notaði joðófór til þess að sótthreinsa.

Flesta þessa hluti, eins og ger, joðófór o.fl. er hægt að fá hjá mér í brew.is.

Uppskrift – Magntölur

Ég notaði eftirfarandi í hvora lögn:

 • 1kg ber
 • 4 lítrar vatn
 • 1 teskeið gernæring
 • 2,26kg hunang.

Um hunang: Gæði á hunangi geta verið mjög misjöfn. Ódýrt hunang er venjulega fjöldaframleitt þannig að býflugur hafa greiðan aðgang að sykri og gera hunang úr honum. Úr verður hunang, en hunang sem er frekar einsleitt og þykir ekki spennandi í mjaðargerð. Úrvalið af öðru hunangi er ekki mikið hér á landi, og verðið á því sem er spennandi er venjulega mjög hátt. Ég fann þó hunang í kosti sem er gert aðallega úr smárablómum – Þ.e.a.s. flugurnar sem gera hunangið hafa aðallega aðgang að smárum og frá þeim kemur mesta bragðið og sætan. Það eru til ótal gerðir af hunangi, t.d. appelsínublóma, villiblóma og margt fleira. Hunangið skiptir meira máli þegar maður er að gera 100% mjöð án ávaxta og fleira, því þá kemur allur karakter mjaðarins úr hunanginu, og að minna leyti frá gerinu.

Um ávext/ber: Það er misjafnt hvernig menn vilja undirbúa ávextina fyrir mjöðinn. Sumir vilja sjóða þá til að sótthreinsa og sumir vilja setja ávextina í þegar megnið af gerjuninni er búin. Ég ákvað að fara þessa leið núna því hún er einföld og þægileg svona í fyrstu tilraun.

Um gernæringu: Það er algengt að nota uþb 1 teskeið af gernæringu per gallon (3.8 lítra) af miði. Venjulega er helmingnum bætt í strax við blöndun, og rest svo dreift í daglega næstu 2-4 daga og hrært upp í miðinum samhliða því. Það er talið gera gæfumuninn fram yfir að til dæmis setja alla næringuna strax. Það er ekki mælt með því að bæta súrefni í mjöðinn eftir að gerið er búið með 50% af sykrinum.

Leiðbeiningar

Öllu hráefninu er einfaldlega hent saman í sótthreinsaða fötu og hrært saman með sótthreinsaðri sleif. Svo er mikilvægt að koma sem mestu súrefni í blönduna og hægt er, og þá eru margir sem nota hræru á borvél, hrista eða eitthvað slíkt. Ég er búinn að koma mér upp hreinu súrefni og loftstein, sem ég nota venjulega í bjórgerðina þannig að ég notaði það bara í mjöðinn líka. Það þarf samt ekki, það dugar alveg að hrista hressilega í 1-2mín.

Ég gerði þetta í þessari röð:

 1. Sótthreinsa fötu með joði
 2. Bleyta upp í geri
 3. Frosin ber í fötu (1kg)
 4. Gernæring í fötu (1/2 teskeið)
 5. Hunang í fötu (2,26kg)
 6. Heitt vatn í fötu (4 lítrar) – Reyna að hitta á 20°C
 7. Bæta geri í fötu
 8. Bæta ~1/4 teskeið gernæringu eftir um 36klst – 24klst eftir að gerjun hefst. Smá súrefni hér.
 9. Bæta ~1/4 teskið gernæringu sólarhring eftir 9. Smá súrefni hér.
 10. Bæta ~1/4 teskeið gernæringu eftir að 30% sykurs er búið – ca 4-6 dagar. Smá súrefni hér.
 11. Bíða.

Liður 11. getur tekið ansi langan tíma. Ég sé fyrir mér að hafa mjöðinn á berjunum í 1-2 mánuði og fleyta svo ofan af berjunum í annað ílát og geyma þannig í nokkra mánuði áður en ég set mjöðinn á flöskur.

Ég veit ekki hvernig þetta á eftir að koma út, en þetta er amk rétt gert skv bókinni. Þetta er hrikalega einfalt og ég var margfalt lengur að skrifa þennan bloggpóst heldur en að henda hráefninu í fötu.

Ítarefni

Curt Stock er mikill snillingur og hefur unnið til margra verðlauna fyrir mjöðinn sinn. Ég mæli með þessu skjali og þessum þætti af BrewingTV ef þig langar að kynna þér mjaðargerð meira.

Myndir

Ég tók fullt af myndum af ferlinu hjá mér og hendi þeim hér með smávegis texta. Það er alltaf gaman að skoða myndir! 🙂

Kirsuber fyrst í fötuna

Kirsuber fyrst í fötuna

Hálf teskeið af gernæringu

Hálf teskeið af gernæringu

Kirsuber og gernæring

Kirsuber og gernæring

Wyeast gernæring, sem ég nota í mjöðin

Wyeast gernæring, sem ég nota í mjöðinn

Vatn til að bleyta upp í gerinu

Vatn til að bleyta upp í gerinu

 

Bleyta upp í gerinu

Bleyta upp í gerinu

 

Ger byrjað að taka í sig vatn

Ger byrjað að taka í sig vatn

Hunangi bætt við

Hunangi bætt við

 

2,26kg af hunangi komið í

2,26kg af hunangi komið í

 

4 lítrar af vatni - vigtað

4 lítrar af vatni, um 60°C – vigtað

 

Allt komið í, en aðeins of heitt fyrir gerið

Allt komið í, en aðeins of heitt fyrir gerið

 

Út með föturnar til að kæla þær í 20°C fyrir gerið. Tók um 40mín í -3°C

Út með föturnar til að kæla þær í 20°C fyrir gerið. Tók um 40mín í -3°C

 

Mæla sykurmagn. 1.120 eftir leiðréttingu á hitastigi. Ætti að enda í um 14% ABV

Mæla sykurmagn. 1.120 eftir leiðréttingu á hitastigi. Ætti að enda í um 14% ABV

 

Súrefni í mjöðinn, til að hjálpa gerjun í gang

Súrefni í mjöðinn, til að hjálpa gerjun í gang

 

Súrefni í mjöðinn

Súrefni í mjöðinn

 

Búinn að bleyta upp í gerinu, tilbúið fyrir mjöðinn

Búinn að bleyta upp í gerinu, tilbúið fyrir mjöðinn

 

Gerinu bætt í

Gerinu bætt í

 

Blönduð ber, frosin. Ég gerði kirsuberja og berjaskammtinn alveg eins, samhliða.

Blönduð ber, frosin. Ég gerði kirsuberja og berjaskammtinn alveg eins, samhliða.

Blichmann pöntun

Thursday, February 6th, 2014

BoilerMaker Family

Blichmann gera einhverjar flottustu græjur sem heimabruggarar eiga kost á. Ég er búinn að tryggja mér umboðið fyrir þessum glæsilegu vörum, en til þess að það gangi upp þá þarf ég að taka inn mjög stóra fyrstu pöntun.

Þar kemur þú inn. Með því að panta fyrirfram hjá mér, þá get ég boðið þér mikinn sparnað á Blichmann vörum. Verðin eru amk 30% lægri en þau sem ég verð með þegar ég er kominn með Blichmann vörur á lager.

Hvað er hægt að fá hjá Blichmann?

Þar er helst að nefna Boilermaker pottana, sem eru til í öllum stærðum frá 28 lítrum upp í 208 lítra. Pottarnir koma standard með hæðargleri, til að sjá vatnsmagn í pottinum og krana. Einnig er hægt að fá aukahluti eins og falska botna, hitaelement, humlasíur og fleira. Þetta eru allra flottustu bruggpottar sem þú finnur og á mjög góðu verði, sérstaklega ef þú tekur inn í að með pottunum er hitamælir, krani og hæðarglas.

Boilermaker 7.5 gal c		301,5		49.894
Boilermaker 10 gal c		329,99		56.407
Boilermaker 15 gal c		394,99		66.569
Boilermaker 20 gal c		429,99		74.966
Boilermaker 30 gal c		544,99		97.492
Boilermaker 55 gal c		669,99		137.803
Boilermaker 55 gal 2bbl ext	455		111.380

Einnig eru blichmann með ryðfría kóníska gerjunartanka frá 26 lítrum upp í 300 lítra. Tankarnir eru með sampling arm, til að taka sýni af bjórnum án þess að opna tankinn, og einnig er loki neðst á tönkunum til þess að fleyta gerinu undan bjórnum án þess að hræra í neinu. Þetta eru glæsilegar græjur, með glæsilegan verðmiða 🙂

Fermenator F3-7 (7 gal)				599,99		100.093
Fermenator F3-14 (14.5 gal)			639,99		107.547
Fermenator F3-27 (27 gal)			849		147.951
Fermenator F3-42 extension			509,99		83.087
Fermenator F3-42 (42 gal complete unit)	1299,99		222.754

Svo er það beergun, sem er græja til að fylla á flöskur af kútum án oxideringar og annarra vandræða sem menn lenda gjarnan í. Það er mjög þægilegt að nota byssuna t.d. þegar maður þarf að losa kút fyrir aðra lögun eða þegar maður vill setja á flöskur og sleppa við allt botnfall. Beergun með fylgihlutapakkanum kostar 15.000kr í forpöntun.

Þeir bjóða upp á fleiri vörur, sem má sjá á heimasíðunni þeirra.

Birt verð eru mjög líkleg, en birt með fyrirvara um ófyrirséð vörugjöld eða tolla. Verð miðast við að vara sé fyrirframgreidd að fullu. Fyrra verðið er verð í dollurum út úr búð í USA, seinna verðið er í krónum, með virðisaukaskatti. Ég hvet menn til að bera þetta við verð í USA, bæta við virðisaukaskatti og sjá hvort þetta séu ekki bara nokkuð samkeppnishæf verð 🙂

Ef þú hefur áhuga á einhverjum öðrum Blichmann vörum sendu mér þá póst á brew@brew.is og ég get gefið þér verðhugmynd á því. Einnig tek ég við pöntunum og spurningum í sama netfangi. Seinasti séns til að panta Blichmann græjur er 5. mars. Þá væru græjurnar að detta inn á gólf til mín einhvertíman í lok Apríl.

Ef stendur til að taka mikið af græjum frá Blichmann þá er möguleiki að bjóða upp á einhvern örlítinn afslátt umfram þessi verð.