Notað korn eftir bruggun – Hvað get ég gert við hratið?

Hrat sem verður eftir þegar maður er búinn að gera bjór er hægt að nýta á ýmsa vegu og óþarfi að henda því í ruslið þar sem það verður engum að gagni.
Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað er sniðugt að gera við notað korn (hrat) eftir all grain bruggun.

Í garðinn

Hrat er frábært í moltugerð – Það inniheldur uppbyggingarefni sem vantar oft í moltuna og brotnar auðveldlega niður.
Einnig er gott að dreifa því yfir beð og gras flatir þar sem kornið er stút fullt af næringu fyrir plöntur þó það sé nær gagnslaust fyrir okkur.
Fuglar og önnur smádýr kroppa einnig í kornið, sérstaklega á veturna þegar það er minna um mat fyrir þau. Ég hef séð mýs, fugla og fleira standa á beit í hratinu í garðinum mínum um miðjan vetur.

Handa dýrunum

Kýr, kindur og hestar éta hratið með bestu lyst.

Hundanammi

Einnig er auðvelt að gera hundanammi úr hratinu, til dæmis eftir þessari uppskrift:

 • 4 bollar hrat
 • 2 bollar hveiti
 • 1 bolli hnetusmjör (án  viðbætts sykurs) – Einnig hægt að nota t.d. sæta kartöflu eða niðursoðið grasker
 • 2 egg

Aðferð

Öllu blandað saman í skál, etv auka hveiti bætt við ef deigið er óþarflega blautt.

Deigið er flatt út í ca 1-1.5cm þykkt lag og skorið út í passlega stærð fyrir hundinn þinn. Einnig hægt að hnoða í kúlur og fletja út eða jafnvel nota smákökuform til að gera nammið skemmtilegt í laginu.

 • Bakað á 175°C í 30 mín
 • Bakað á 125 í 2-3klst til að þurrka almennilega og auka geymsluþol
 • Leyfa að kólna og geyma svo í loftþéttum poka eða íláti

Ef nammið náði að þorna almennilega í ofninum þá á það að geymast í margar vikur án vandræða. Til þess að lengja geymsluþolið enn frekar getur verið sniðugt að skipta namminu upp í nokkra poka og geyma í frysti.

Handa mannfólkinu – Brauð

Ég hef verið að leika mér með uppskrift að brauði sem ég geri iðulega eftir bruggun. Einnig er hægt að frysta hratið ef maður vill eiga það í bakstur til lengri tíma. Hratið gefur skemmtilega áferð í brauðið og auka bragð. Bragðið er mismunandi eftir hvernig bjór var gerður, til dæmis ef maður er að gera dökkan bjór þá verður brauðið skemmtilega litað af því.

Hér er uppskriftin af mínu brauði.

 • 400gr hveiti eða heilhveiti – Mér finnst gott að nota ca 50/50
 • 300ml volgt vatn (30°C eða svo)
 • Lúka af hrati
 • 1tsk salt
 • 1tsk ger

Öllu blandað saman í skál og hrært saman með sleif. Skálin er svo látin standa í herbergishita í amk 12 klst. 12 klst duga fínt, en ef maður lætur standa lengur þá fer að koma súrdeigsfílíngur í brauðið.

Ofninn er hitaður í 225°C og svo skelli ég deiginu í passlega stórt eldfast mót með loki og set í ofninn. Eftir ca 40mín tek ég lokið af og baka í ca 20mín í viðbót.

Einnig er hægt að fara eftir öðrum no knead uppskriftum af netinu. Til dæmis þessari.

Leave a Reply