Léleg nýtni í bruggun – ástæður og ráð

Fólk hefur oft samband við mig vegna vandræða við lélega nýtni, þ.e.a.s. þegar fólk fær lægra OG en búist var við samkvæmt uppskrift. Það geta verið margar ástæður fyrir því, en förum yfir þær sem mér dettur í hug núna.

Korn ekki hrært vel

Þegar maður blandar korninu í vatnið er mjög mikilvægt að hræra vel og vandlega í því. Það er vegna þess að við það að hella korninu í vatnið myndast kögglar sem er nauðsynlegt að brjóta upp. Ef maður gerir það ekki þá er maður bara að meskja utan á kögglunum og kornið inn í þeim sleppur við meskinguna. Einnig er mikilvægt að hræra vandlega til þess að hitastigið í grautnum sé jafnt allsstaðar. Þessi skeið er snilld og beyglast ekki í hræri átökunum.

Hitastig í meskingu og dough in

Hitastig í meskingu stýrir því hvað hlutfall gerjanlegra sykra kemur úr meskingunni. Ef maður til dæmis byrjar of heitt í meskingunni, þá er hætt við því að maður slökkvi á mikið af ensímunum sem sjá um að breyta sterkjunni í sykrur. Það er því mikilvægt að hafa ekki of heitt í byrjun meskingar, heldur bara passlegt eða um 65-69 gráður eftir að maður er búinn að hræra. Algengast er að miða við um 66-67 gráður, en það fer algjörlega eftir uppskriftinni. Hærri hitastig gefa illgerjanlegri virt (hærra FG) á meðan lægri hitastig gefa gerjanlegri virt (lægra FG). Hér getur líka einangrun á meskiílátinu komið inn, því ef hitastigið lækkar um meira en 1-2 gráður í meskingunni þá getur það haft áhrif á nýtnina og vert að skoða að einangra ílátið betur.

Lengd meskingar

Oftast eru 60mín feykinægar fyrir meskinguna, en ef maður er í vandræðum með nýtnina þá getur verið gott að lengja hana í 90mín. Það á sérstaklega við um þegar maður er að meskja kalt, t.d. við 64-6 gráður. Þetta á einnig við um stærri bjóra, t.d. yfir OG 1.070.

Mashout

Mashout er þegar maður hitar meskinguna upp í 76 gráður. Samkvæmt minni reynslu þá er þetta skref critical til að ná fullri nýtingu. Einfaldasta leiðin til að ná mashouti er að geyma ca 5 lítra af vatni í byrjun meskingar, og bæta þeim sjóðandi heitum í meskifötuna í lok meskingar.

Mölun á korninu

Ef kornið er of gróft malað þá getur verið erfitt að ná fullri nýtni. Það á ekki að vera vandamál með korn malað hjá mér, ég brugga sjálfur með korni malað úr minni kvörn á 2-4 vikna fresti og fæ alltaf 70-75% nýtni.

Vatnsmagn

Ef maður er með of mikið af virt í lok meskingar eða suðu þá er hann augljóslega þynnri en uppskriftin gerir ráð fyrir. Þá er í lagi að sjóða t.d. aðeins lengur, en ekki sjóða humlana lengur en uppskriftin gerir ráð fyrir

Hátt gravity

Þegar maður er að brugga stóra bjóra (t.d. yfir 1.070 eða svo, þá er eðlilegt að nýtnin fari niður. Því þarf maður að gera ráð fyrir því í byrjun bruggunar með því að nota meira korn eða jafnvel bæta extracti við í suðunni. Því hærra OG, því meira korn þarf maður.

Skakkur sykurmælir

Sykurmælar eiga að að sýna 1.000 þegar maður stingur þeim í vatn sem er 20°C. Ef hann sýnir hærra eða lægra er hægt að gera ráð fyrir því þegar maður mælir virt. Ath að það er mikilvægt að sykurmælirinn sé alveg heill – Engar sprungur eða brot í honum.

Skakkur hitamælir

Hægt er að komast að því hvort hitamælir sé réttur með því að stinga honum í sjóðandi vatn. Í sjóðandi vatni á hann að sýna um 98°C (eftir því hve hátt yfir sjávarmáli maður er með). Svo til að prófa neðri mörkin er hægt að fylla vatnsglas með muldum ísmolum og fylla upp í með köldu vatni. Þá á mælirinn að sýna 0°C eða því sem næst.

Hitastig á virti þegar mælt er

Sykurmælar eru allir gerðir með ákveðið hitastig í huga – Venjulega 20°C. Ef vökvinn er heitari en mælirinn er gerður fyrir þá sýnir mælirinn minna en raunhitastig er. Það munar ekki mjög miklu, t.d. 4 punktur (0.004) ef maður mælir við 35°C. En það er ágætt að hafa það í huga. Hér er reiknivél sem getur reiknað þetta fyrir þig.

Eins og sjá má eru flest vandamál við nýtni komin frá meskingunni. Það er því mikilvægt að vanda sig sérstaklega með öll hitastig í meskingu og gefa sér góðan tíma í hana. Vonandi hjálpar þetta einhverjum. Endilega kommenta ef ykkur dettur eitthvað fleira í hug.

One thought on “Léleg nýtni í bruggun – ástæður og ráð

  1. Pingback: Vatnsviðbætur

Leave a Reply