Algengar spurningar frá nýjum bruggurum

Hér eru nokkrar spurningar sem ég heyri reglulega frá nýjum bruggurum. Þetta er augljóslega ekki tæmandi listi og svörin höfð í styttra lagi. Ég mun uppfæra þennan lista ef mér dettur eitthvað nýtt í hug sem er oft spurt út í.

Hvernig losna ég við botnfall í flöskunum?

Botnfallið í flöskunum er að mestu leyti ger. Þegar maður setur sykurinn í flöskurnar til að fá kolsýru í bjórinn, þá byrjar gerið á því að fjölga sér, étur svo sykurinn og býr til kolsýru og (örlítið) áfengi. Ef maður vill sleppa 100% við botnfall þá þarf maður að hafa leið til að kolsýra bjórinn áður en hann fer í flöskurnar, til dæmis í bjórkút og setja kolsýru af þrýstikút á bjórinn. Og nei, sodastream virkar ekki sérstaklega vel 🙂

Hvað tekur langan tíma að búa til bjór?

Í fyrstu skiptin er gott að gera ráð fyrir 5-6 klukkustundum í að gera bjórinn, með þrifum og undirbúningi. Þegar menn eru komnir upp á lagið með að gera bjór þá getur það tekið allt niður í 3 tíma. Svo tekur gerjunin 10-20 daga og átöppun á 20 lítrum af bjór á flöskur getur tekið um 2 tíma.

Geta allir búið til bjór?

Það geta allir búið til bjór. Svo einfalt er það. Sumir fara “all in” og pæla í uppskriftum, lesa sér til um hitt og þetta á meðan aðrir ná sér í grunnþekkingu og brugga svo alltaf sömu eða svipaða uppskrift. Maður þarf ekki að vera heltekinn af bjór og bjórgerð til að gera góðan bjór.

Hvernig bjór á ég að gera fyrst?

Ég mæli alltaf með Bee Cave sem fyrstu lögn. Ljós, léttur og þægilegur bjór sem er samt nóg bragð af til að skýla yfir byrjendamistök sem geta komið upp í fyrstu lögn.

Skemmist bjórinn?

Bjór skemmist í raun aldrei ef hreinlætið við framleiðslu hans var í lagi. En flestir bjórar byrja að dala í bragðgæðum eftir um 6 mánuði á flöskum.

Hvernig sía ég bjórinn?

Það eru til græjur til að sía bjór en þær eru mjög ópraktískar fyrir heimabruggara og ýmis vandamál sem tengjast þeim. Ég veit ekki um einn heimabruggara sem síar bjórinn sinn.

Get ég búið til x bjór?

Það er hægt að gera alla bjóra heimafyrir. Það er kosturinn við bjórgerð, að maður hefur aðgang að nákvæmlega sömu hráefnum og brugghúsin. Eina vandamálið er að finna uppskriftina, og það getur tekið nokkrar tilraunir að negla uppskrift ef maður er að gera bjór eftir fyrirmynd.

Hvað get ég gert sterkan bjór? Hvernig geri ég hann sterkari?

Sky is the limit. Menn eru sjaldan að fara mikið yfir 10%, en það er þó ekkert sem mælir gegn því. Ger þolir allt að 18%, en það þarf oft töluverða hjálp til að komast svo hátt í áfengismagni. Meiri sykur = meira áfengi. Megnið af sykri kemur úr korninu, en oft er notað eitthvað smávegis af hvítum sykri þegar stórir bjórar eru bruggaðir.

Er erfitt að gera lager bjór?

Það er ekki erfitt, en það krefst auka tækjakosts. Maður þarf aðstöðu til að gera bjórinn við 8-12 gráður (eftir gerli), og geta svo lagerað bjórinn, í gerjunarílátinu við ca 1°C.

Ég er með ofnæmi fyrir glúteini, get ég gert bjór og drukkið?

Það er glútein í byggi, og því getur verið erfitt að gera alveg glúteinlausan bjór. Gerið getur dregið í sig mikið af glúteininu, þannig að ef maður er bara með “smá” ofnæmi þá getur vel verið að maður geti drukkið heimabrugg. Ég mæli þó ekki með því það er mjög misjafnt hvernig þetta fer í menn (og konur).

Leave a Reply