Kolsýra bjór á kútum

Ég fæ reglulega spurningar um hvernig maður fer að því að kolsýra bjór á kútum. Það eru nokkrar leiðir í boði, eftir því hvernig maður vill gera hlutina og hvað manni liggur mikið á. Það er einmitt einn kostur við kútana að maður getur komið bjórum í drekkanlegt ástand á örstuttum tíma, t.d. grain to glass á 1-2 vikum ef maður er að gera bjór sem þolir það að vera mjög ungur. Flestir bjórar njóta góðs af meiri rólegheitum, en þetta er allavega hægt ef maður þarf þess.

Náttúruleg kolsýra

Þetta er svipuð aðferð og menn eru vanir með flöskurnar. Hérna er settur sykur í bjórinn – Minna magn en ef maður væri að setja á flöskur og kúturinn geymdur í 2-3 vikur í herbergishita á meðan gerið í bjórnum vinnur á sykrinum. Þannig fær maður náttúrulega kolsýru. Ókosturinn er að maður fær töluvert botnfall í kútinn. Til þess að fá minna af botnfalli í glasið eru kútunum venjulega breytt þannig að bjórrörið, rörið sem fer niður á botn í kútnum er stytt. Það er stytt til þess að rörið sé fyrir ofan botnfallið og maður fái ekki botnfall í hvert einasta glas.  Flutningur á kútnum verður líka leiðinlegri þar sem hver hreyfing hristir upp í gerinu og gerir bjórinn skýjaðari. Það er hægt að minnka áhrifin af þessu með því að stytta rörið og færa svo bjórinn yfir á annan kút, en þá er maður kominn í töluverðar tilfærslur án þess að græða endilega á því að nota aðferðina.

Sumir vilja meina að það sé bragðmunur á bjórnum svona, en flestir eru þó ekki á því. Margir vilja meina að t.d. humlaríkir bjórar séu betri, “ferskari” og meira crisp þegar maður kolsýrir með gaskút.

Rólegheit með gasi

Kúturinn er settur á maintenance þrýsting inn í ísskáp og svo bíður maður bara. Það tekur 2-4 vikur að ná fullri kolsýru í bjórinn, en kosturinn við þessa aðferð er að það eru engar líkur á því að maður of kolsýri bjórinn. Einnig er þetta hentugt með marga bjóra því maður vill hvort eð er gefa þeim nokkrar vikur í þroskun áður en maður byrjar að drekka bjórinn. Það er alltaf hægt að fá sér smá smakk reglulega til að athuga kolsýruna á bjórnum þó hann sé ekki alveg orðinn tilbúinn.

Til þess að finna út hvaða þrýsting maður þarf til að fá rétta kolsýru er best að notast við þessa töflu, þar sem samspil hitastigs bjórsins og þrýstings kolsýru er tekið til greina.

Flýtikolsýring

Þessi aðferð er hentug þegar manni liggur mikið á að koma kolsýru á bjórinn. Þá kælir maður bjórinn í ca. 4 gráður og setur um 40PSI þrýsting á kútinn. Kúturinn er svo hristur hressilega í 30-90 sekúndur. Þá er bjórinn orðinn kolsýrður. Það getur verið erfitt að hita á rétt kolsýrustig á bjórnum með þessari aðferð, en það er ágætt að vita af henni ef manni liggur á. Það er mjög auðvelt að of kolsýra bjórinn og þá lendir maður í því að það kemur stanslaus froða þegar maður reynir að fá sér. Það getur tekið nokkra daga að taka þrýsting af kútnum, og þess vegna mæli ég frekar með næstu aðferð, hálfflýtikolsýringu.

Þegar maður er búinn að hrista kútinn lækkar maður þrýsting niður í serving þrýsting og passar að lækka þrýstinginn á kútnum líka. Margir kranar eru ekki gerðir fyrir þennan þrýsting og geta skemmst ef maður hleypir 40psi á þá. Það á sérstaklega við um party/picnic krana.

Hálfflýtikolsýring

Þetta er sú aðferð sem ég nota mest. Hún felst í því að kúturinn er kældur í ca. 4 gráður, og svo settur 40psi þrýstingur á kútinn. Kúturinn er látinn standa með þeim þrýsting í ~20klst og þá er bjórinn orðinn létt kolsýrður. Ég set kútinn svo á maintenance þrýsting og þá skríður bjórinn upp í rétta kolsýru á nokkrum dögum. Kosturinn við þessa aðferð er að þarna eru litlar líkur á því að fara of hátt með kolsýruna, en samt fá næga kolsýru í bjórinn til að það sé hægt að njóta hans fljótt. Svo er hægt

Skilgreiningar

Serving þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum þegar maður er að dæla af honum. Til dæmis ef maður er með stuttar slöngur á krönunum þá þarf að lækka þrýstinginn til þess að bjórinn freyði ekki of mikið.

Maintenance þrýstingur – Þrýstingurinn sem er á kútnum til að viðhalda réttri kolsýru í bjórnum. Venjulega er reynt að hafa serving og maintenance þrýsting þann sama til þess að þurfa ekki að lækka þrýstinginn í hvert skipti sem einhver ætlar að fá sér bjór. Hægt er að finna út hvað maintenance þrýstingurinn á að vera með því að skoða þessa töflu.