Berjamjöður – Melomel

Hvað er betra á fallegum sunnudags eftirmiðdegi en að henda í svosem 10 lítra af berjamiði?

Hvur fjandinn er melomel?

Ef við byrjum á byrjuninni, þá er mjöður hunang og vatn sem er gerjað. Venjulega 10-15% áfengi og ekki ósvipað hvítvíni að mörgu leyti. Margir halda að mjöður eigi eitthvað skylt við bjór, en það er rangt og þessir annars ágætu drykkir mjög ólíkir að flestu leyti. Melomel er svo útgáfa af miði þar sem ávöxtum (oftast berjum) er bætt í hann á einhverju stigi gerjunar. Ávextirnir gefa bragð, lit og áferð í mjöðinn. Einnig eru til fleiri útgáfur af miði, t.d. cyser, þar sem vatninu er skipt út fyrir eplasafa eða epli notuð í mjöðinn. Sjá meira á wikipedia fyrir fróðleiksfúsa. Ég hef prófað að gera cyser, sem ég setti á flöskur nýlega. Það má sjá meira um þá tilraun hérna. Ég er enginn mjaðarsérfræðingur, en það er alltaf gaman að tilraunastarfsemi þannig að ég ákvað að gera frekari tilraunir með þetta.

Aðferð

Það sem þú þarft er eftirfarandi

 • Gerjunarílát. Ílátið þarf að vera nokkrum lítrum stærra en magnið sem þú ætlar að gera. Berin taka pláss o.f.frv. Einnig þarftu vatnslás á gerjunarílátið. Ég notaði 10 lítra fötur sem ég á helling af.
 • Ger. Gerillinn þarf að vera hraustur og sprækur og þarf að geta unnið á sykrinum í hunanginu og ávöxtunum. Mismunandi ger henta mis vel fyrir mjaðargerð. T.d. eru kampavínsger venjulega frekar óhentug því þau búa til mjöð sem minnir meira á bensín fyrstu mánuðina eða jafnvel árin.
 • Gernæring. Ger á mjög erfitt með að melta hunang því það er lítið af steinefnum og vítamínum í hunangi sem gerið þarf til að geta gerjað. Því er gernæring mjög mikilvæg. Berin innihalda töluvert af næringu og hjálpa því til, en það borgar sig samt að nota gernæringu. Algengt magn er um ein teskeið per gallon, helmingur fyrst og rest dreift yfir næstu vikuna eða svo.
 • Vatn. Segir sig kannski sjálft, en setjum það samt á listann. Ég notaði 4 lítra.
 • Hunang. Maður gerir ekki mjöð án hunangs. Ég notaði smárahunang úr kosti. Það kostar uþb 2300kr fyrir 2.23kg (5lb).
 • Ávextir / ber, 1kg. Þú getur notað næstum hvaða ávexti sem er (forðast sítrusávexti samt!) Ég notaði súr blönduð ber og súr kirsuber. Ég vildi hafa steina í kirsuberjunum en fattaði ekki fyrr en heim var komið að þau voru steinlaus.
 • Joðófór. Eins og í bjórgerð þá er hreinlæti mjög mikilvægt. Allt þarf að vera sótthreinsað, t.d. fata, vatnslás, skeið o.s.frv. Ég notaði joðófór til þess að sótthreinsa.

Flesta þessa hluti, eins og ger, joðófór o.fl. er hægt að fá hjá mér í brew.is.

Uppskrift – Magntölur

Ég notaði eftirfarandi í hvora lögn:

 • 1kg ber
 • 4 lítrar vatn
 • 1 teskeið gernæring
 • 2,26kg hunang.

Um hunang: Gæði á hunangi geta verið mjög misjöfn. Ódýrt hunang er venjulega fjöldaframleitt þannig að býflugur hafa greiðan aðgang að sykri og gera hunang úr honum. Úr verður hunang, en hunang sem er frekar einsleitt og þykir ekki spennandi í mjaðargerð. Úrvalið af öðru hunangi er ekki mikið hér á landi, og verðið á því sem er spennandi er venjulega mjög hátt. Ég fann þó hunang í kosti sem er gert aðallega úr smárablómum – Þ.e.a.s. flugurnar sem gera hunangið hafa aðallega aðgang að smárum og frá þeim kemur mesta bragðið og sætan. Það eru til ótal gerðir af hunangi, t.d. appelsínublóma, villiblóma og margt fleira. Hunangið skiptir meira máli þegar maður er að gera 100% mjöð án ávaxta og fleira, því þá kemur allur karakter mjaðarins úr hunanginu, og að minna leyti frá gerinu.

Um ávext/ber: Það er misjafnt hvernig menn vilja undirbúa ávextina fyrir mjöðinn. Sumir vilja sjóða þá til að sótthreinsa og sumir vilja setja ávextina í þegar megnið af gerjuninni er búin. Ég ákvað að fara þessa leið núna því hún er einföld og þægileg svona í fyrstu tilraun.

Um gernæringu: Það er algengt að nota uþb 1 teskeið af gernæringu per gallon (3.8 lítra) af miði. Venjulega er helmingnum bætt í strax við blöndun, og rest svo dreift í daglega næstu 2-4 daga og hrært upp í miðinum samhliða því. Það er talið gera gæfumuninn fram yfir að til dæmis setja alla næringuna strax. Það er ekki mælt með því að bæta súrefni í mjöðinn eftir að gerið er búið með 50% af sykrinum.

Leiðbeiningar

Öllu hráefninu er einfaldlega hent saman í sótthreinsaða fötu og hrært saman með sótthreinsaðri sleif. Svo er mikilvægt að koma sem mestu súrefni í blönduna og hægt er, og þá eru margir sem nota hræru á borvél, hrista eða eitthvað slíkt. Ég er búinn að koma mér upp hreinu súrefni og loftstein, sem ég nota venjulega í bjórgerðina þannig að ég notaði það bara í mjöðinn líka. Það þarf samt ekki, það dugar alveg að hrista hressilega í 1-2mín.

Ég gerði þetta í þessari röð:

 1. Sótthreinsa fötu með joði
 2. Bleyta upp í geri
 3. Frosin ber í fötu (1kg)
 4. Gernæring í fötu (1/2 teskeið)
 5. Hunang í fötu (2,26kg)
 6. Heitt vatn í fötu (4 lítrar) – Reyna að hitta á 20°C
 7. Bæta geri í fötu
 8. Bæta ~1/4 teskeið gernæringu eftir um 36klst – 24klst eftir að gerjun hefst. Smá súrefni hér.
 9. Bæta ~1/4 teskið gernæringu sólarhring eftir 9. Smá súrefni hér.
 10. Bæta ~1/4 teskeið gernæringu eftir að 30% sykurs er búið – ca 4-6 dagar. Smá súrefni hér.
 11. Bíða.

Liður 11. getur tekið ansi langan tíma. Ég sé fyrir mér að hafa mjöðinn á berjunum í 1-2 mánuði og fleyta svo ofan af berjunum í annað ílát og geyma þannig í nokkra mánuði áður en ég set mjöðinn á flöskur.

Ég veit ekki hvernig þetta á eftir að koma út, en þetta er amk rétt gert skv bókinni. Þetta er hrikalega einfalt og ég var margfalt lengur að skrifa þennan bloggpóst heldur en að henda hráefninu í fötu.

Ítarefni

Curt Stock er mikill snillingur og hefur unnið til margra verðlauna fyrir mjöðinn sinn. Ég mæli með þessu skjali og þessum þætti af BrewingTV ef þig langar að kynna þér mjaðargerð meira.

Myndir

Ég tók fullt af myndum af ferlinu hjá mér og hendi þeim hér með smávegis texta. Það er alltaf gaman að skoða myndir! 🙂

Kirsuber fyrst í fötuna
Kirsuber fyrst í fötuna
Hálf teskeið af gernæringu
Hálf teskeið af gernæringu
Kirsuber og gernæring
Kirsuber og gernæring
Wyeast gernæring, sem ég nota í mjöðin
Wyeast gernæring, sem ég nota í mjöðinn
Vatn til að bleyta upp í gerinu
Vatn til að bleyta upp í gerinu

 

Bleyta upp í gerinu
Bleyta upp í gerinu

 

Ger byrjað að taka í sig vatn
Ger byrjað að taka í sig vatn
Hunangi bætt við
Hunangi bætt við

 

2,26kg af hunangi komið í
2,26kg af hunangi komið í

 

4 lítrar af vatni - vigtað
4 lítrar af vatni, um 60°C – vigtað

 

Allt komið í, en aðeins of heitt fyrir gerið
Allt komið í, en aðeins of heitt fyrir gerið

 

Út með föturnar til að kæla þær í 20°C fyrir gerið. Tók um 40mín í -3°C
Út með föturnar til að kæla þær í 20°C fyrir gerið. Tók um 40mín í -3°C

 

Mæla sykurmagn. 1.120 eftir leiðréttingu á hitastigi. Ætti að enda í um 14% ABV
Mæla sykurmagn. 1.120 eftir leiðréttingu á hitastigi. Ætti að enda í um 14% ABV

 

Súrefni í mjöðinn, til að hjálpa gerjun í gang
Súrefni í mjöðinn, til að hjálpa gerjun í gang

 

Súrefni í mjöðinn
Súrefni í mjöðinn

 

Búinn að bleyta upp í gerinu, tilbúið fyrir mjöðinn
Búinn að bleyta upp í gerinu, tilbúið fyrir mjöðinn

 

Gerinu bætt í
Gerinu bætt í

 

Blönduð ber, frosin. Ég gerði kirsuberja og berjaskammtinn alveg eins, samhliða.
Blönduð ber, frosin. Ég gerði kirsuberja og berjaskammtinn alveg eins, samhliða.

2 thoughts on “Berjamjöður – Melomel

Leave a Reply